Birkir Fannar semur við Selfoss

Birkir Fannar semur við Selfoss

Birkir Fannar Bragason hefur samið við handknattleiksdeildina um að spila með meistaraflokki félagsins auk þess sem hann mun koma að markmannsþjálfun hjá félaginu.

Birkir Fannar er svo sannarlega góður fengur fyrir félagið og er Selfyssingum vel kunnur, hann er 27 ára gamall og hefur undanfarin ár spilað handbolta í Noregi með góðum árangri. Hér á landi hefur hann eingöngu spilað fyrir Selfoss en í Noregi spilaði hann m.a. fyrir Randesund, Kristiansund og HHK.

Í viðtali við heimasíðuna sagði Birkir Fannar að það hefði ekki verið erfið ákvörðun að semja við Selfoss þegar heim var komið „Ég held að það hafi verið gamla Selfosshjartað sem hafi kallað og eftir að hafa rætt við stjórn og þjálfara ákvað ég að taka slaginn.“

Til gamans má geta þess að Áslaug Ýr systir Birkis stendur í marki meistarflokks kvenna og ætti það nú að vera einsdæmi hér á landi þótt víðar væri leitað að systkini verji mark sama félags.

Að lokum vildi Birkir koma því á framfæri að hann hafi miklar væntingar til liðsins þó það sé ungt og með ungan þjálfara „Ég vil hvetja alla til að mæta á völlinn og styðja bæði karla og kvennalið félagsins.“

MM