Bláa fjöðrin – Fjöður sem vegur þungt

Bláa fjöðrin – Fjöður sem vegur þungt

Næstu daga munu eldri iðkendur handknattleiksdeildar Selfoss selja Bláu fjöðrina sem er landssöfnun á vegum Bláa naglans.

Leikmenn munu standa vaktir í Bónus, Krónunni, Nettó, Húsasmiðjunni, Byko og Vínbúðinni á Selfossi frá miðvikudegi til laugardags auk þess sem gengið verður í hvert einasta hús á Selfossi á sunnudagskvöld og fólki boðið að kaupa „Fjöður sem vegur þungt“. Fjöðrin kostar litlar 2.000 krónur.

Við vonum að sem flestir séu tilbúnir að slá tvær flugur í einu höggi og styrkja Handknattleiksdeild Umf. Selfoss og leggja góðu málefni lið í leiðinni.

Blái naglinn hefur hrint af stað söfnunarátaki fyrir erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítalans til stuðnings uppbyggingu á aðstöðu til rannsókna á kjarnsýrum (DNA og RNA) í líkamsvökvum. Blái naglinn vinnur að forvörnum og styður með söfnunum krabbameinsrannsóknir, m.a. á blöðruháls- og ristilkrabbameini. Rannsóknin er vísindalegt þróunarverkefni. Seld verður blá fjöður um land allt vikuna 14.-20. september undir einkennisorðunum „Fjöður sem vegur þungt“. Fé sem safnast gengur til kaupa á tækjabúnaði sem nýtist í krabbameinsrannsóknum.

Nánari upplýsingar um söfnunina eru á vef Bláa naglans.