Einar æfir með Ljónunum í Rhein-Neckar

Einar æfir með Ljónunum í Rhein-Neckar

Miðjumaðurinn efnilegi Einar Sverrisson er nú staddur í Þýskalandi þar sem hann stundar æfingar með Rhein-Neckar Löwen sem þjálfað er af Guðmundi Guðmundssyni fyrrum landsliðsþjálfara Íslands. Hann verður í vikutíma við æfingar hjá félaginu þar sem hann fær að kynnast því hvernig atvinnumenn í handknattleik æfa.

Gunnar Gunnarsson þjálfari Selfoss sagði dvölina vera gríðarlega gott tækifæri fyrir Einar til að kynnast lífinu í atvinnumennskunni. Hjá Ljónunum er æft tvisvar á dag á undirbúningstímabilinu og eru æfingarnar grjótharðar að sögn Gunnars. Þess má geta að Einar er fyrsti leikmaður Selfoss, af vonandi mörgum, sem fer til Ljónanna á grundvelli samkomulags um að framúrskarandi leikmenn okkar fái að æfa með aðalliði félagsins.

Einar, sem valinn var besti og efnilegasti leikmaður Selfoss á seinasta keppnistímabili, mun þó spila áfram með Selfoss næsta tímabil en hann var lang markahæsti leikmaður Selfoss síðasta tímabil og spilaði lykilhlutverk í leik liðsins.