Elvar Örn framlengir við Selfoss

Elvar Örn framlengir við Selfoss

Elvar Örn Jónsson hefur framlengt samning sinn við handknattleiksdeild Selfoss til tveggja ára. Elvar Örn, sem er 19 ára, var valinn miðjumaður ársins í Olís-deildinni á síðasta keppnistímabili.

Hann er fastamaður í U-21 landsliði Íslands sem hefur leik á HM í Alsír nk. þriðjudag og hefur að auki verið valinn til æfinga með A-landsliði Íslands.

Elvar Örn var burðarás í liði Selfoss á síðasta keppnistímabili hvar liðið náði fimmta sæti í deild þeirra bestu eftir að hafa komið upp úr næst efstu deild að loknu fræknu einvígi við Fjölni á vordögum síðasta ár.

Það er mikið fagnaðarefni fyrir handboltann á Selfossi að Elvar Örn hafi kosið að spila áfram fyrir  sitt uppeldisfélag og væntir félagið mikils af honum sem og öllum þeim uppöldu Selfyssingum sem ákveðið hafa að halda tryggð við sitt heimafélag.

Frekari frétta af leikmannamálum meistaraflokks karla hjá Selfoss er að vænta á næstu dögum.

Stjórn handknattleiksdeildar Selfoss