Endurreisn í Mýrinni

Endurreisn í Mýrinni

Selfyssingar áttu harma að hefna gegn Stjörnunni eftir síðasta leik liðanna í Coca Cola-bikarnum. Selfoss vann fjögurra marka sigur í Mýrinni í kvöld, 29-33.

Sigur Selfyssinga var aldrei í hættu. Strákarnir náðu frumkvæðinu strax í byrjun og slepptu því aldrei. Þeir náðu fimm marka forskoti undir lok fyrri hálfleiks en leiddu með fjórum mörkum í leikhléi, 11-15. Stjarnan náði að minnka muninn niður í þrjú mörk í byrjun seinni hálfleiks en þá gáfu Selfyssingar í og náðu mest sjö marka forystu þegar um 10 mínútur voru eftir af leiknum. Selfoss gaf aðeins eftir undir lok leiks en sigurinn aldrei í hættu og glæsilegur fjögurra marka sigur á sterku liði Stjörnunnar staðreynd, 29-33.

Mörk Selfoss: Haukur Þrastarson 8/4, Magnús Öder Einarsson 7, Atli Ævar Ingólfsson 6, Einar Sverrisson 5, Ísak Gústafsson 2, Daníel Karl Gunnarsson 2, Tryggvi Þórisson 2, Guðni Ingvarsson 1.

Varin skot: Alexander Hrafnkelsson 8 (33%) og Einar Baldvin Baldvinsson 5 (27%).

Selfoss er því áfram í fjórða sæti deildarinnar með 25 stig, jafnmörg stig og Haukar og Afturelding. Nú tekur við bikarpása en næsti leikur strákanna er í Hleðsluhöllinni gegn Haukum fimmtudaginn 12. mars.

Magnús Öder lék á alls oddi og skoraði 7 mörk í leiknum.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/IHH