VIÐ SETJUM MARKIÐ HÁTT
Meistaraflokkur karla tekur nú þátt í Evrópukeppni annað árið í röð. Í fyrra vorum við hársbreidd frá því að komast í riðlakeppni EHF keppninnar eftir tap gegn sterku liði Azoty-Pulawy frá Póllandi.
Að þessu sinni komum við inn í 2. umferð keppninnar og mætum þar HK Malmö frá Svíþjóð. Fyrri leikurinn fer fram helgina 5. – 6. október út í Svíþjóð og sá síðari viku seinna hér heima. Með sigri í þessari umferð komast strákarnir í 3. umferð keppninnar og eiga þá aftur möguleika á að komast í riðlakeppni EHF bikarsins, þar sem ekkert íslenskt lið hefur áður komist.
Þátttaka í Evrópukeppninni er gríðarlega kostnaðarsöm og leitum við því eftir áheitum frá fyrirtækjum, félögum og einstaklingum til að styrkja okkur í þessu verkefni.
Þeim sem heita á liðið verður gerð skil í jólablaði handknattleiksdeildarinnar sem gefið verður út byrjun desember. Einnig verður þeim gerð skil á heiðursvegg í anddyri Hleðsluhallarinnar.
Fyrirtæki, félag eða einstaklingur skuldbindur sig til að heita uppgefinni fjárhæð, að lágmarki 1.000 kr, á hvert mark sem Selfoss skorar í 2. umferð EHF-bikarsins gegn HK Malmö.