Fimm Selfyssingar á HM

Fimm Selfyssingar á HM

Ljóst er að fimm Selfyssingar verða í leikmannahóp landsliðsins sem fer á heimsmeistaramótið í handbolta eftir að Guðmundur Guðmundsson tilkynnti hópinn á blaðamannafundi í gær. Mótið hefst á morgun, fimmtudag og er haldið í Þýskalandi og Danmörku.

Bjarki Már Elísson var kallaður inn í hópinn í gær eftir að Guðjón Valur Sigurðsson meiddist. Þá var Teitur Örn Einarsson einnig kallaður inn í hópinn á nýjan leik í stað Rúnars Kárasonar. Ómar Ingi Magnússon og Elvar Örn Jónsson fara með til Þýskalands en Janus Daði Smárason datt úr hópnum. Þá verður Haukur Þrastarson til taks sem sautjándi maður (fyrir utan hóp). Jón Birgir Guðmundsson verður að sjálfsögðu fulltrúi Selfoss á hliðarlínunni sem sjúkraþjálfari.

Miklar breytingar hafa orðið á landsliðshópnum á síðustu dögum vegna meiðsla og veikinda. Guðmundur sagði að hann hefði aldrei lent í öðru eins á sínum þjálfaraferli.

Liðið heldur til München á morgun og mætir Króötum í fyrsta leik á föstudaginn.

Leikir Íslands í B-riðli:

Fös (11.jan) kl. 17: Ísland – Króatía
Sun (13.1) kl. 18: Spánn – Ísland
Mán (14.1) kl. 14:30: Ísland – Barein
Mið (16.1) kl. 14:30: Japan – Ísland
Fim (17.1) kl. 17: Makedónía – Ísland

Allir leikir liðsins verða í beinni á RÚV.


Mynd: F.v: Janus Daði, Ómar Ingi, Haukur og Elvar Örn eftir seinni æfingaleikinn gegn Barein á milli jóla og nýárs. Á myndina vantar Teit Örn og Bjarka Má. Janus var ekki valinn í hópinn.
Umf. Selfoss/Einar Sindri