Flottur sigur í 4. flokki

Flottur sigur í 4. flokki

Strákarnir í 4. flokki fóru til Akureyrar á föstudaginn og léku gegn heimamönnum í KA. Ferðin var vel heppnuð og sigraði Selfoss 25-28 eftir að hafa leitt 10-16 í hálfleik. Leikurinn var jákvæður fyrir Selfyssinga sem fara nú að búa sig undir leik í 8-liða úrslitum bikarsins sem fer fram næstkomandi fimmutdag í Vallaskóla.

Selfyssingar mættu með góðu hugarfari í ferðina og ætluðu augljóslega að fara með 2 stig heim. Þeir létu langa rútuferð ekki sitja í sér og kláruðu leikinn strax í byrjun. Selfoss komst í 1-6 og 4-10. Eftir það var munurinn á bilinu 5-8 mörk nánast til leiksloka. KA-menn kláruðu leikinn hins vegar með fjögurra marka kafla sér í vil og lokatölur 25-28 sigur Selfoss.

Sóknarleikur Selfoss var mjög góður í leiknum og fundu þeir góðar lausnir við hinum ýmsu varnarafbrigðum sem KA reyndi í leiknum. Þó komu sóknir inn á milli þar sem ekki gekk sem skildi en alltaf þegar liðið spilaði saman og náðu upp góðum takti fengu þeir fín færi. Varnarleikurinn var góður lengst af í fyrri hálfleik en útfrá öllum leiknum á liðið á enn inni þar.

Næsta fimmtudag, 26. janúar, kl. 20:00 mæta strákarnir KR í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar í 4. flokki. Rík ástæða er til þess að hvetja fólk til að mæta á leikinn þar sem 4. flokkur fékk loksins bikarleik á heimavelli.