Flugbeittur leikur í Hafnarfirði

Flugbeittur leikur í Hafnarfirði

Selfyssingar mættu kröftugir í Kaplakrikann í gær. Fyrir leikinn voru þeir einu stigi á eftir FH um miðja deild. Flestir bjuggust við jöfnum og spennandi leik en sú varð ekki raunin.

FH skoraði fyrsta mark leiksins en Selfyssingar voru ekki lengi að jafna og taka forystuna sem þeir héldu til leiksloka. Einar Sverrisson fór fremstur í flokki Selfyssinga í fyrri hálfleik og virtist á tímabili ekki taka eftir vörn FH, fór bara í skot þegar hann vildi og skoraði.

Hinum megin á vellinum small vörn strákanna okkar sem tókst að lama sóknarleik FH á löngum köflum. Heimamenn skoruðu aðeins fimm mörk á fyrsta korterinu og þrjú komu úr vítum. Gestirnir juku forskotið jafnt og þétt og voru komnir í átta í hlé.

Þegar liðin sneru aftur til leiks voru heimamenn hættulegri en brekkan var brött. Þeir minnkuðu muninn en Grétar Ari Guðjónsson var okkur mikilvægur í markinu og náði að stoppa nokkur dauðafæri.

Heimamönnum tókst að minnka muninn í þrjú þegar sex mínútur voru eftir en nær komust þeir ekki. Einar og Elvar Örn Jónsson, bestu menn leiksins, settu nokkrar þrumur að utan sem tryggðu gestunum sigur. Selfyssingar héldu sáttir heim með tvö stig.

Nánar er fjallað um leikinn á vef Sunnlenska.is.

Einar var markahæstur Selfyssinga með 11 mörk, Elvar Örn skoraði 7, Guðjón Ágústsson 6, Eyvindur Hrannar Gunnarsson og Hergeir Grímsson 3 og Guðni Ingvarsson, Andri Már Sveinsson og Sverrir Pálsson 2 mörk hver. Grétar Ari varði 12 skot í marki Selfoss.

Selfyssingar eru í 4. sæti deildarinnar með 6 stig og taka á móti Stjörnunni í íþróttahúsi Vallaskóla fimmtudaginn 13. október kl. 19:30.

Einar Sverrisson fór á kostum í Kaplakrika.
Ljósmyndir: Umf. Selfoss/ Jóhannes Ásgeir Eiríksson