Frábær Akureyrarferð 4. flokks

Frábær Akureyrarferð 4. flokks

4. flokkur eldri (97) gerði mjög góða ferð norður á Akureyri um helgina. Strákarnir mættu Þór fyrr í dag og fóru þar með öruggan sigur 15-24. Ferðin heppnaðist vel og á eftir að skila hópnum miklu.

Selfyssingar voru greinilega klárir frá byrjun í leikinn. Þeir voru komnir í 1-3, 2-6 og loks 3-9. Frábær varnarleikur bjó til þetta forskot en munurinn rokkaði frá 5-7 mörkum út fyrri hálfleikinn.  Hálfleikstölur voru 10-16. Í seinni hálfleik jók Selfoss aðeins við muninn en í honum fengu okkar menn einungis á sig 5 mörk og lokatölur 15-24.

Í varnarleiknum voru menn að standa sig mjög vel sem áður segir og braut liðið 51 fríkast í leiknum. Fékk liðið einnig frábæra markvörslu (61%). Liðið á nokkuð inni sóknarlega en það breytir ekki öllu þar sem sigurinn var aldrei í hættu.

Ferðin sjálf var hin skemmtilegasta. Farið var á föstudegi og búin til alvöru ferð í kringum þennan leik. Strákarnir mættu með frábæru viðhorfi í ferðina og nutu þess að vera saman í frábærri aðstöðu í Líkamsræktarstöðunni Bjargi á Akureyri. Þar nýttu menn tímann vel og unnu í að gera hópinn ennþá þéttari en hann var fyrir.