Góð Partille ferð að baki hjá 4. flokk

Góð Partille ferð að baki hjá 4. flokk

Yngra ár 4.flokks tók þátt í Partille Cup á dögunum en mótið er eitt stærsta og skemmtilegasta handboltamót heims og er haldið í Gautaborg í Svíþjóð ár hvert.

Selfoss sendi út tvö lið til keppni í u-15, eitt stráka- og eitt stelpu-lið.  Stelpuliðið lenti í mjög sterkum riðli en stóðu sig engu að síður vel og enduðu í 4. sæti af sex liðum og fóru þá beint í  64 liða úrslit í B úrslitum.  Þar stóðu þær sig mjög vel og unnu 64 liða úrslitin mjög öruggt.  Þær fóru síðan í gegnum 32 liða úrslitin á mögnuðu gullmarki og töpuðu að lokum í 16 liða úrslitum með einu marki í hörkuleik og mikið svekkelsi.  Liðið sló þær út fór svo alla leið í úrslitaleikinn.

Strákaliðið var í toppbaráttu í sínum riðli og hitti því miður ekki á sinn besta leik í lokaleik riðlakeppninnar og enduðu því í 3. sæti síns riðils, en fóru samt í A úrslit sem er flottur árangur.  Þar sem þeir enduðu í 3. sæti þá þurftu þeir að fara í gegnum umspilsleik fyrir 64 liða úrslitin.  Sá leikur var spilaður kl. 8 um morgun og okkar drengir voru ekki alveg vaknaðir og voru nokkrum mörkum undir í hálfleik.  Þann mun náðu þeir ekki að brúa og voru því úr leik.

Hópurinn stóð sig mjög vel og þetta var skemmtileg ferð í alla staði.  Áfram Selfoss!


Mynd: Ungir handboltaiðkendur stilla sér upp áður en haldið er af stað til Gautaborgar á eitt stærsta handboltamót heims.
Umf. Selfoss / SDH