Góður sigur á Fylki í fyrsta leik

Góður sigur á Fylki í fyrsta leik

Selfoss sótti Fylki heim í fyrsta leik 1. deildar karla á tímabilinu í kvöld 20. september.

Leikurinn fór vel af stað hjá Selfossi sem náði snemma 2 marka forystu 2-4. Það gekk hinsvegar erfiðlega hjá liðinu að slíta Fylkismenn frá sér. Eftir korter var staðan 5-9. Sóknarleikur Selfoss hefur oft litið betur út og spiluðu menn sig oft út úr kerfunum. Lítið breyttist næstu mínúturnar og hélt Fylkir sig ágætlega inn í leiknum. Þannig stóðu leikar 10-14 þegar  5 mínútur voru til hálfleiks. Selfoss náði ekki að búa til afgerandi forystu fyrir leikhlé og hélst því 4 marka munurinn og staðan 12-16.

Seinni hálfleikurinn byrjaði eins og sá síðasti endaði, greinilegt að haustbragurinn var mikill á leiknum. Enda mikið um einföld mistök. Selfoss hélt áfram 4 marka forystuna sinni og staðan 17-21 eftir 40 mínútur. Það var ekki fyrr en eftir 50 mínútur að Selfoss náði loksins að skilja Fylki eftir og það með góðri vörn sem uppskar auðveld mörk úr hraðaupphlaupum. Staðan var því 22-28 og 10 mínútur til leiksloka. Það var því bara orðin spurning hversu stór sigurinn yrði. Selfoss bætti við forystuna og endaði á lokum með góðum 9 marka sigri í fyrsta leik, lokatölur 25-34.

Það þarf ekki að fara miklum orðum um að þetta var greinilega fyrsti deildarleikur hjá báðum liðum. Sóknir Selfoss urðu oft á tíðum of stuttar og einhæfar. Hinsvegar náði vörnin sér ágætlega á strik í síðari hálfleik. Markvarslan hefur oft á tíðum verið betri. Það vantaði hinsvegar Sverrir Andrésson í dag og Sebastian spilaði einungis fyrstu 12-15 mínúturnar þar sem hann hafði tognað á síðustu æfingu fyrir leikinn. Hermann Guðmundsson átti síðan fína innkomu í markið. Gaman var þó að sjá hversu vel það var rúllað á mannskapnum og tveir strákar að þreyta frumraun sína með meistaraflokki, þeir Daníel Arnar Róbertsson og Ómar Ingi Magnússon. Sérstaklega verður að minnast á Ómar enda drengurinn kornungur einungis 16 ára og átti mjög fína innkomu í hægra hornið.

Næsti leikur strákanna er ekki fyrr en eftir tvær vikur 4. október klukkan 20:00 heima gegn Gróttu. Liðið situr hjá í næstu umferð. Endilega sem flestir að mæta á leikinn og í vetur og styðja strákana.

Tölfræði:

Andri Hrafn 8/11 og 2 boltar stolnir

Matthías Örn 5/5, 2 stoðsendingar og 8 brotin fríköst

Jóhann Erlingsson 5/6 og 3 brotin fríköst

Sverrir Pálsson 3/6, 4 varin skot og 8 brotin fríköst

Magnús Már 3/3, 2 fiskuð víti og 2 brotin fríköst

Hörður Másson, 2 /4, 4 stoðsendingar og 7 brotin fríköst

Örn Þrastarson 2/5, 6 stoðsendingar, 3 tapaðir boltar og 1 brotið fríkast

Ómar Ingi 2/4 og 1 brotið fríkast

Árni Felix 2/2 og 1 brotið fríkast

Jóhannes Snær 1/1 og 1 brotið fríkast

Daníel Arnar 1/1 og 2 brotin fríköst

Ómar Vignir 0/1 og 6 brotin fríköst

 

Markvarslan:

Hermann 12/32 (37%) og 2 stoðsendingar

Sebastian 4/9 (44%) 1 stoðsending og 1 tapaður bolti

 

-SÞ

Tags: