Góður sigur í erfiðum leik gegn KR

Góður sigur í erfiðum leik gegn KR

Mfl. karla tók á móti KR á föstudaginn en KR-ingar eru nýliðar í deildinni og tefla fram ágætu liði með öfluga handboltamenn innanborðs.

KR skoraði fyrsta mark leiksins en Selfoss svaraði með þremur mörkum í röð og hélt forystunni allan leikinn. Selfoss náði mest fimm marka forskoti en leikurinn var kaflaskiptur. Fyrri hálfleikur var fínn og Selfoss fór inn í hálfleik með góða forystu, 15-11.  KR spilaði fastan varnarleik og hægan sóknarleik sem varð til þess að leikurinn var ekki mikið fyrir augað, sérstaklega seinni hálfleikurinn. KR náði að draga Selfoss niður á sama plan með hægum sóknarleik. Þó leikurinn hafi verið kaflaskiptur virtist sigurinn aldrei í hættu og lokatölur urðu 22-19 en munurinn hefði átt að vera mun meiri.

Einar Sverrisson og Sverrir Pálsson áttu fína spretti en voru teknir úr umferð stóran hluta seinni hálfleiksins sem riðlaði sóknarleik Selfoss nokkuð. Sebastian átti fínan dag í markinu og í heildina var liðið að spila fína vörn en nokkuð var um mistök í sóknarleik liðsins.

Liðið er enn taplaust í öðru sæti í deildarinnar með 11 stig eftir sex leiki. Baráttan er hörð og næsti leikur liðsins er mjög mikilvægur. Þá mæta strákarnir Stjörnunni, sem er í þriðja sæti deildarinnar, í Garðabænum.  Leikurinn er fimmtudaginn 14. nóvember klukkan 19:30.

Strákarnir vona að sem flestir geri sér ferð í Garðabæinn og myndi brjálaða stemmingu á pöllunum en góður stuðningur skiptir miklu máli í leikjum sem þessum.

Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 6 mörk, Sverrir Pálsson gerði 5 mörk, Andri Hrafn Hallsson 3 mörk, Eyvindur Hrannar Gunnarsson og Ómar Vignir Helgason 2 mörk og að lokum skoruðu Jóhann Erlingsson, Andri Már Sveinsson, Árni Felix Gíslason og Ómar Ingi Magnússon 1 mark hver.

Sebastian Alexanderson varði 19 varin skot í leiknum sem gerir 50% markvörslu.

Tags: