Góður sigur Selfoss

Góður sigur Selfoss

Það gengur vel hjá stelpunum í meistaraflokki kvenna en þær sigruðu KA/Þór um helgina. Eftir sigurinn eru þær í 6. sæti deildarinnar með fimm stig eftir fimm leiki.

KA/Þór byrjaði leikinn betur, var einu til tveimur mörkum yfir í upphafi leiks en lið Selfoss fór fljótlega í gang og jafnt var á flestum tölum seinni hluta fyrri hálfleiksins. Selfoss var einu marki yfir í hálfleik, 10-9.

Selfoss byrjaði seinni hálfleikinn af krafti, jók muninn jafnt og þétt og var munurinn mestur sex mörk í stöðunni 18-12 þegar sautján mínútur voru til leiksloka. Þær misstu aðeins niður forskotið í lokin en leikurinn endaði með öruggum sigri Selfoss, 23-21.

Þessi sigur var fyrst og síðast sigur liðsheildarinnar en stelpurnar voru öflugar í sókn og Katrín stóð sig vel í markinu með öfluga vörn fyrir framan sig en hún varði samtals 15 bolta, oft á mjög mikilvægum augnablikum. Hrafnhildur Hanna raðaði inn mörkum, var langmarkahæst í liði Selfoss með ellefu mörk. Carmen skoraði sex mörk, Kristrún þrjú, Harpa Sólveig tvö og Þuríður skoraði eitt mark.

Til gamans má geta þess að eftir þennan leik er Hrafnhildur Hanna markahæst í Olís deild kvenna með 38 skoruð mörk.

Mynd: Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir

Tags: