Handboltaakademían á Selfossi var stofnuð árið 2006 og frá þeim tíma hafa alls 189 ungmenni reynt fyrir sér í þessu námi. Frá stofnun hafa alls 50 iðkendur klárað öll þrú árin og útskrifast úr þessu námi en hinir 139 verið ýmist í eitt eða tvö ár af þeim þremur sem þarf til að klára námið.
Í meistaraflokkum félagsins í dag eru fjölmargir leikmenn sem hafa farið í gegnum akademíustarfið. Í dag eru 36 leikmenn í æfingahópum meistarflokks karla og kvenna sem hafa verið í handknattleiksakademíu FSu. Í dag höfum við átt sjö leikmenn sem hafa komist í atvinnumennsku úr akademíunni og tólf leikmenn sem hafa verið valdir í æfingahóp hjá A-landsliði Íslands. Þar af eru átta þeirra búnir að spila leik.
Á þeim tíma sem akademían hefur verið starfandi hafa yfir 60 leikmenn verið valdir til æfinga hjá þeim landsliðum sem eru á framhaldsskólaaldri. Úr þessum hópi leikmanna eru yfir 35 leikmenn sem hafa náð því að spila opinberan leik fyrir Ísland. Það er því með mikilli ánægju og stolti sem við vonumst til þess að halda áfram að stuðla að mótun framtíðarleikmanna fyrir íslenskan handknattleik um ókomin ár.
Í akademíunni undirrita allir iðkendur samning þar sem þeir skuldbinda sig til þess að fylgja ákveðnum reglum. Þar er komið inn á ýmsa þætti eins og að sinna náminu, mæta á æfingar og verkefni sem tengd eru markmiðum og ýmsu í þá áttina. Mikilvægasti þáttur samningsins er forvarnagildi hans, en þeir krakkar sem eru í akademíu og undirrita samninginn skuldbinda sig til þess að neyta ekki neinna vímuefna, tóbaks eða áfengis á samningstímanum.
Einnig býðst krökkunum að skrá sig aukalega í akademíumat. Það er mötuneyti á vegum akademíunnar þar sem eldaður er góður hádegismatur sem hæfir íþróttafólki fjórum sinnum í viku og mælum við eindregið með því að krakkarnir nýti sér það, enda er næring einn mikilvægasti grunnþáttur íþróttafólks sem vill ná árangri.
Hvað þýðir að vera hluti af akademíu Umf. Selfoss?
Að vera hluti af akademíu er að vera hluti af heild sem öll stefnir að sameiginlegum markmiðum. Það að vera í akademíu þýðir að þú þarft að læra á sjálfan sig og læra á aðra ásamt þínu nánasta umhverfi. Að umgangast þessa hluti og annað fólk í þínu umhverfi af skilningi, metnaði, skynsemi og ábyrgð. Þú þarft að læra að vera hluti af einhverju stærra og finna þinn sess í því sem þú ert að taka þátt í og gera eins mikið úr því og þú getur.
Hvað fæ ég út úr því að vera í akademíu Umf. Selfoss?
Ef þú tekur fullan þátt í því sem er verið að setja upp fyrir þig þá öðlast þú betri skilning á sjálfum þér sem einstaklingi og íþróttamanni. Þú lærir að nálgast þín verkefni af þolinmæði, ábyrgð og metnaði og finnur vonandi þína hillu í því sem þú ert að taka þér fyrir hendur og bætir þig í kjölfarið.
Framtíðin
Vonandi verður framtíðin áfram jafn björt og frjó og hefur verið hingað til. Það er von okkar að skemmtilegir og áhugasamir krakkar haldi áfram að sækja í okkar prógram og við höldum áfram að standa undir þeim væntingum sem þessir krakkar gera til okkar.