3 fl. karla kominn í undanúrslit

3 fl. karla kominn í undanúrslit

Leikurinn byrjaði jafn og var staðan 10-10 eftir 15 mín. en þá fór nánast allt úrskeiðis hjá Selfoss. Stjarnan gekk á lagið og leiddi verðskuldað í hálfleik 16-21. Eins og svo oft áður í vetur þá tók það strákana ekki nema 10 mín. í síðari hálfleik að gera leikinn jafnan aftur en staðan á 40 mín. leiksins var þá orðin 23-24 fyrir gestina og svo náði Selfoss að jafna 25-25 þegar korter var eftir. Þá tók Stjarnan aftur við sér og komst í 25-28 en okkar strákar voru ekki á því að detta strax út úr keppninni og jöfnuðu aftur 29-29. Eftir það var jafnt á öllum tölum til leiksloka og endaði leikurinn 32-32. Í framlengingunni náðu strákarnir okkar strax frumkvæðinu og héldu því til loka og unnu mikilvægan sigur 39-36 og tryggðu sig í undanúrslit Íslandsmótsins.

Stjarnan spilaði þennan leik gríðarlega vel og var Selfoss í stökustu vandræðum með það að verjast þeim. Þetta var þriðji leikur liðanna í vetur og í öll þrjú skiptin hefur Stjörnunni tekist að skora yfir 30 mörk en Selfoss fékk aðeins 25 mörk á sig að meðaltali í vetur. Þá er þetta í annað skipti í vetur sem leikur í venjulegum leiktíma endar með jafntefli á milli liðanna. Í ljósi þess hversu afgerandi Selfoss vann deildina má segja að Stjarnan hafi verið erfiðasti andstæðingur liðsins í vetur.

Framundan er svo leikur í undanúrslitum við sigurvegarann úr viðureign Fram og Gróttu en sá leikur verður á heimavelli Selfoss á bilinu 27 apríl til 2 maí. Staðfestur leiktími verður auglýstur síðar.

Áfram Selfoss