3. fl. kvenna kominn í undanúrslit i Bikarnum

3. fl. kvenna kominn í undanúrslit i Bikarnum

Fylkir er í efsta sæti 1. deildar en Selfoss er í fjórða sæti 2. deildar og því var alveg ljóst að stelpurnar okkar voru að mæta miklu sterkara liði í leiknum í gær. En Bikarkeppnin er sérstök keppni þar sem ævintýrin gerast og í gær náðu stelpurnar að framkalla lítið kraftaverk í Vallaskóla. Þessi sigur var ekkert minna en stórkostlegur fyrir þessar ungu stelpur sem eru flestar enn í 4. flokki og sumar m.a.s. á yngra ári.

Selfoss náði strax frumkvæði í leiknum og náði að halda 2-3 marka forystu allan leikinn. Vörn og markvarsla var frábær og lagði grunninn að því að eiga tækifæri til þess að eiga möguleika í leiknum. Strax á 14 mín. leiksins meiddist Þuríður að því er virðist mjög illa en það er möguleiki á því að hún sé ökklabrotinn en auðvitað vonum við að svo sé ekki. Þá spilaði Thelma Björk ekki með vegna lasleika þannig að sóknarleikurinn var þá að mestu borinn uppi af ´97 stelpunum. Þær stóðu sig frábærlega að þessu sinni og fundu ýmsar leiðir til þess að skora og halda forystu í leiknum. Staðan í hálfleik var 17-14 fyrir okkar stelpur.

Það var ljóst í hálfleik að seinni hálfleikur yrði erfiður en stelpunum tókst að halda gestunum í hæfilegri fjarlægð alveg þar til um 5 mín. voru eftir en þá var munurinn orðinn 1 mark og Fylkir alltaf líklegt til þess að ná sigri á lokakaflanum. Hins vegar spilaðist leikurinn okkar stelpum í hag og á meðan að gestirnir nýttu ekki þau tækifæri sem þær fengu þá náðu stelpurnar okkar að setja inn mörk í síðustu tveimur sóknunum sem tryggðu frábæran sigur á frábæru liði. Flottur og fjölbreyttur sóknarleikur fyrri hálfleiks hvarf í þeim síðari þar sem varnirnar tóku leikinn yfir. Hálfleikurinn fór 9-10 fyrir Fylki og bæði lið að spila frábæra vörn. Leikurinn fór stönginn inn að þessu sinni fyrir Selfoss og stelpurnar fögnuðu vel og lengi að leik loknum.

Í undanúrslitum tekur Selfoss á móti Haukum og verður sá leikur auglýstur um leið og tímasetning liggur fyrir.
Heimasíðan óskar Þuríði góðs bata og vonar að hún sé ekki brotinn. Við viljum sjá hana sem fyrst á vellinum aftur. Sé hún hins vegar brotin eru það slæmar fréttir fyrir kvennahandboltann á Selfossi.

Áfram Selfoss