3. flokkur karla úr leik í Bikarnum

3. flokkur karla úr leik í Bikarnum

Bæði lið virkuðu frekar taugaóstyrk í upphafi leiks og því til marks þá var staðan enn 0-0 eftir 6 mínútur. Loksins eftir að fyrsta markið leit dagsins ljós þá byrjaði leikurinn fyrir alvöru. Jafnt var á öllum tölum alveg upp í 7-7 og aðeins 5 mínútur eftir af hálfleiknum.  Á þeim kafla fór allt úrskeiðis hjá okkar strákum og Framarar fengu 5 marka forskot á silfurfati í hálfleik. Staðan 12-7.

Jóhann Bragi slasaðist illa í lok fyrri hálfleiks og var fluttur burt með sjúkrabíl en hann fór úr axlarlið. Hann er nú á batavegi og óskum við honum bata sem fyrst.

Síðari hálfleikur var hins vegar frábær og náðu strákarnir með gríðarlegri baráttu og góðum leik að snúa leiknum sér í hag. Þegar tæpar 3 mínútur voru eftir af leiknum þá leiddu þeir 20-22 og voru með boltann. Hins vegar náðu þeir ekki að halda ró sinni og spiluðu því miður of stuttar sóknir sem kostuðu það að Fram skoraði 2 næstu mörk leiksins. Þá fékk Selfoss óheppilega brottvísun einmitt þegar rúmar 2 mín. voru eftir af leiknum og það taldi mjög mikið á þessum lokakafla.

Janus var tekinn úr umferð, Gísli Þór í brottvísun og Jóhann Erlings meiddur eftir að hafa misstigið sig augnabliki áður. Þá er Sverrir meiddur á öxl og getur í raun ekki skotið og Jóhann Bragi farinn í sjúkrabíl eftir sín meiðsli. Það voru því í raun engir útispilarar eftir til þess að klára leikinn og menn því að spila úr stöðu á þessum mikilvægu mínútum. Engu að síður áttu strákarnir að vinna leikinn en vonandi að þessar lokamínútur fari í reynslubankann. Það sem skiptir samt mestu máli er að þeir fundu sinn leik aftur í gær og vonandi að þeir haldi dauðahaldi í hann það sem eftir er vetrar í þetta skipti.

Eftir frábæra frammistöðu í allan vetur þá hefur liðið aðeins misst taktinn núna í síðustu tveimur leikjum. Það hefur vantað uppá þá þætti sem gerir þá svo góða. Í leiknum við Aftureldingu náði liðið aldrei að spila sinn leik né í fyrri hálfleik í gær á móti Fram. Hins vegar þá sýndu þeir í síðari hálfleik í gær að þeir eru komnir aftur. Hrein unun var að sjá liðið í síðari hálfleiknum og sýndu þeir talsverða yfirburði á þeim tíma. Hins vegar er Fram ekki Íslandsmeistari í þessum flokki að ástæðulausu enda með mjög sterkt lið og mikil orka fór að snúa við 5 marka mun sér í vil.  Í lokin voru það síðan smáatriðin sem felldu strákana að þessu sinni og þar með eru þeir úr leik í Bikarnum í ár. 

Strákarnir verða að hrista svekkelsið fljótt af sér enda heldur deildin áfram á laugardag er þeir fara til Eyja að spila við ÍBV. Þeir eru í góðri stöðu í deildinni og hafa örlögin í sinni hendi og ef þeir ná að spila næsta mánuðinn eins og þeir spiluðu í síðari hálfleik í gær þá munu þeir uppskera árangur þess erfiðis.

Áfram Selfoss