3. flokkur karla vann Val

3. flokkur karla vann Val

Leikurinn byrjaði rólega og augljóst að þetta var fyrsti leikur eftir talsverða pásu. Gestirnir komust þó fljótlega í 3-5 en strákarnir okkar náðu síðan taktinum og breyttu stöðunni í 9-5. Sá munur hélst fram að hálfleik og staðan í hléinu 15-11 fyrir Selfoss.

Strákarnir byrjuðu síðari hálfleik frábærlega og þegar 12 mín. voru liðnar af síðari hálfleik var staðan orðin 20-12 og allt stefndi í öruggan sigur. Hins vegar eru Valsmenn með gott lið og þeir gerðu lokaatlögu að því að komast inn í leikinn og náðu góðum kafla þar sem allt gekk á afturfótunum hjá Selfoss. Vörnin hafði slakað á og sóknarleikurinn varð kæruleysislegur. Gestirnir náðu að minnka muninn í 23-19 þegar 10 mín. voru eftir af leiknum. Þá tók Selfoss leikhlé. Að því loknu breyttist staðan í 27-20 á einungis 5 mín. Síðustu 5 mín. leiksins kom svo kafli þar sem fjölmörg dauðafæri fóru forgörðum. Valsmenn nýttu sér það og skoruðu síðustu 3 mörk leiksins og lokastaðan því 27-23.

Valsmenn eru með gríðarlega öfluga einstaklinga í sínu liði og góðan markmann. Því þurftu okkar strákar að hafa mun meira fyrir sigrinum en tölurnar gefa til kynna. Þrátt fyrir frábæra kafla í leiknum þá komu einnig þrír 5 mín. kaflar í leiknum þar sem liðið var ekki að spila vel, en það kom ekki að sök að þessu sinni.

Varnarleikurinn var góður mest allan leikinn og markvarslan frábær allan leikinn. Sóknarleikurinn hins vegar datt út og inn, en var heilt yfir í lagi. Náðu strákarnir yfirleitt að skapa sér tækifæri, en skotnýtingin hefði mátt vera betri. Markvörður Valsmanna átti góðan dag að þessu sinni.

Næsti leikur liðsins er gegn KA fyrir norðan föstudaginn 20. janúar. Að þeim leik loknum er fyrri umferð deildarinnar lokið.

Næsti heimaleikur hjá strákunum verður 25. janúar gegn Gróttu í 8-liða úrslitum Bikarkeppninnar. 
Hvetjum við alla til þess að taka það kvöld strax frá. 

Áfram Selfoss