Góður sigur hjá Selfoss 2

Góður sigur hjá Selfoss 2

Selfoss 2 í 3. flokki karla vann KR-inga í dag 25-22 eftir að hafa verið þremur mörkum yfir í hálfleik. Sigurinn er sá þriðji hjá liðinu í fimm leikjum og liðið á góðri stefnu í deildinni.

Selfoss náði strax undirtökunum í leiknum og munurinn á bilinu 2-3 mörk lengst af í fyrri hálfleik.  Í síðari hálfleik náði Selfoss mest fimm marka forskoti en KR-ingar náðu að saxa forskotið niður í 2 mörk undir lok leiks. Selfyssingar fundu þó góðar lausnir í næstu tveimur sóknum eftir það og þriggja marka sigur staðreynd.

Miklu skipti að margir skiluðu til liðsins í leiknum en 8 útileikmenn af 9 skoruðu í leiknum. Sóknarleikurinn gekk vel á köflum, sérstaklega þegar liðið náði hröðu spili og þegar leikmenn komu hratt á markið í skot. Varnarleikurinn aftur á móti vann leikinn fyrir Selfyssinga sem og baráttan þar. KR-ingar áttu í miklum erfiðleikum með að skora lengi vel í leiknum og þessi leikur framhald af seinustu leikjum fyrir jól. Þessir strákar berjast fyrir hvorn annan og gefa allt í leikina. Það er að skila góðum árangri.

Næsti leikur Selfoss 2 er á útivelli gegn HKR 23. janúar næstkomandi.