Tap hjá mfl. kvenna gegn Fylki

Tap hjá mfl. kvenna gegn Fylki

Mikið var um forföll að þessu sinni og aðeins 9 leikmenn voru á skýrslu. Þá spiluðu bæði Thelma Sif og Heiðrún meiddar. Thelma Sif er tognuð aftan á læri og Heiðrún er slæm í skothöndinni. En það er engin afsökun, leikina þarf að spila og okkar stelpur voru jafn margar inná vellinum og Fylkir. Stelpurnar spiluðu frábæra vörn í leiknum eins og vanalega og markvarslan var fín þegar leið á leikinn.

Það var hins vegar afar slakur sóknarleikur í fyrri hálfleik sem varð þeim að falli að þessu sinni. Það var ekki það að færin vantaði heldur fóru fjölmörg skot framhjá eða í stöng. Það sem fór á markið varði frábær markmaður Fylkis en sú stúlka er í U-20 ára landsliði Íslands.

Planið í síðari hálfleik var að fá ekki meira en 20 mörk á sig og skora 15 mörk og freista þess þannig að vinna leikinn. Háleitt markmið miðað við hálfleikstölur en stelpurnar voru ákveðnar í að reyna. Það fór svo að Fylkir skoraði 21 mark og þær skoruðu 14 þannig að ekki voru þær langt frá því að ná að framkalla lítið kraftaverk að þessu sinni.

Stelpurnar sýndu mikið baráttuþrek og vilja við erfiðar aðstæður þannig að ekki er hægt að sýta þetta tap. Fylkisliðið er skipað gríðarlega efnilegum stelpum og Selfoss lét þær svo sannarlega hafa fyrir sigrinum að þessu sinni.

Næsti leikur liðsins er ævintýri fyrir kvennahandbolta á Selfossi en þá kemur eitt af þremur bestu liðum landsins í heimsókn í Bikarkeppninni á fimmtudaginn kemur og þótt möguleikar okkar stelpna séu litlar sem engar þá biðjum við fólk samt að koma og upplifa þetta einstaka tækifæri til þess að sjá N1 deildarlið kvenna spila á Selfossi.

Áfram Selfoss