Handboltavertíðin að byrja – strákarnir hefja leik

Handboltavertíðin að byrja – strákarnir hefja leik

Handboltavertíðin rúllar formlega af stað á morgun, föstudaginn 19. september, þegar meistaraflokkur karla tekur á móti Hömrunum í 1. deildinni. Leikurinn hefst kl. 20:00 í íþróttahúsi Vallaskóla.

Nokkrar breytingar hafa orðið á liðinu frá síðasta tímabili þar sem munar mestu um að Einar Sverrisson, Ómar Ingi Magnússon og Andri Hrafn Hallsson hafa róið á önnur mið. En það kemur maður í manns stað og hefur liðið verið að styrkjast á undirbúningstímabilinu og gengið ágætlega í þeim æfingaleikjum sem spilaðir hafa verið. Ungir strákar, uppaldir hjá félaginu, hafa verið að taka meiri ábyrgð innan liðsins. Þá hefur liðið endurheimt Árna Geir Hilmarsson og markmennina Helga Hlynsson og Sölva Ólafsson sem koma til með að auka enn á samkeppnina innan liðsins. Það má líka segja að Matthías Örn sé að koma til baka eftir að hann sleit krossband snemma á síðasta tímabili.

Að sögn Gunnars Gunnarssonar þjálfara mfl. karla er hann bjartsýnn fyrir veturinn. „Það er mikil breidd í liðinu og samkeppni um hverja einustu stöðu.“ Þá hefur hann fulla trú á að liðið komi til með að berjast í toppi deildarinnar eins og það gerði á síðasta tímabili. Liðið er byggt upp á ungum og efnilegum strákum ásamt eldri reynsluboltum.

Ef eitthvað er að marka spá forráðamanna, fyrirliða og þjálfara liðanna í deildinni í vetur þá mun lið Selfoss vera í toppbaráttunni. Samkvæmt spánni kemur liðið til með að enda í 2. sæti fyrstu deildarinnar.

Meistaraflokkur kvenna

Fyrsti leikur meistaraflokks kvenna er á laugardaginn á útivelli, þegar þær sækja Fram heim. Fyrsti heimaleikur liðsins er svo þriðjudaginn 23. september klukkan 19:30 en þá taka stelpurnar á móti FH í íþróttahúsi Vallaskóla.

Það hafa litlar breytingar orðið á liðinu frá síðasta tímabili en Kristrún Steinþórsdóttir er komin aftur heim eftir að hafa spilað eitt tímabil í Danmörku. Sigrún Arna og Tinna Soffía eru í barneignafríi en þær stefna báðar á að koma til baka um mitt tímabil. Eins og hjá mfl. karla er kvennaliðið byggt upp á ungum stelpum sem uppaldar eru hjá félaginu en undanfarin tvö ár hefur stór hluti liðsins einnig spilað með 3.flokki. Nú koma þessar stelpur reynslunni ríkari og árinu eldri inn í nýtt tímabil. Liðinu er spáð 10. sæti í Olís deildinni en þær enduðu í því sæti á síðasta tímabili.

Það er spennandi vetur framundan hjá Selfoss og er fólk hvatt til að fjölmenna í íþróttahúsið, föstudaginn 19. september þegar strákarnir hefja leik og svo eru það stelpurnar þriðjudaginn 23. september eins og áður sagði.

Áfram Selfoss!