Handboltavertíðin að hefjast

Handboltavertíðin að hefjast

Föstudaginn 20. september hefst handboltavertíðin á fullum krafti. Þá heldur mfl. karla í Árbæinn og mætir Fylki klukkan 19:30. Það verður spennandi að fylgjast með strákunum í deildinni í vetur, sem spila nú undir stjórn nýs þjálfara, Gunnars Gunnarssonar sem tók við keflinu í vor af Arnari Gunnarssyni. Liðið er nánast eingöngu byggt upp af strákum sem aldir eru upp hjá félaginu en mikil uppbygging hefur átt sér stað undanfarin ár og er nóg af framtíðarleikmönnum að stíga upp og banka á dyrnar hjá meistaraflokknum. Það var sérstaklega skemmtilegt að fylgjast með liðinu á nýliðnu Ragnarsmóti þar sem strákarnir stóðu vel í úrvalsdeildarliðunum ÍR og HK sem bæði mörðu eins marks sigur. Þess má geta að í lið Selfoss vantaði nokkra af lykilmönnum liðsins sem eru ýmist að jafna sig eftir meiðsl eða aðgerð en flestir verða þeir tilbúnir í slaginn þegar vertíðin byrjar.

Fjölgað hefur um þrjú lið í fyrstu deildinni hjá körlunum. Næsta tímabil verða því ellefu lið í stað átta í fyrra. Þetta gerir deildina skemmtilegri og meira spennandi en mikil barátta verður um laus sæti í úrvalsdeildina að ári.

Fyrsti heimaleikur vetrarins er laugardaginn 21. september klukkan 13:30. Þá taka stelpurnar í meistaraflokki á móti liði KA/Þórs frá Akureyri en norðanstelpur eru nýjar í deildinni, skráðu inn lið í sumar. Selfoss er með ungt og efnilegt lið sem spilar nú sitt annað ár í Olísdeildinni. Gengi liðsins í fyrra var eins og væntingar stóðu til en það verður gaman að fylgjast með stelpunum í vetur, undir stjórn Sebastians Alexanderssonar. Vonandi sjáum við stelpurnar okkar í úrslitakeppninni í vor en þangað eiga þær klárlega erindi.

Hvetjum handboltaáhugafólk að fjölmenna á pallana í íþróttahúsi Vallaskóla á laugardaginn og hvetja stelpurnar til sigurs í fyrsta heimaleik vetrarins. Fyrsti heimaleikur hjá strákunum verður svo föstudaginn 4. október á móti Gróttu.

Áfram Selfoss