Jafntefli á móti Fylki í háspennuleik

Jafntefli á móti Fylki í háspennuleik

Nú er boltinn farinn í rúlla í handboltanum eftir jólafrí.  Stelpurnar héldu í Árbæinn í dag, áttu leik á móti Fylki í fyrstu umferð ársins.  Það er skemmst frá því að segja að leikurinn var jafn og spennandi allan tímann.  Selfoss var einu og tveimur mörkum yfir næstum allan leikinn en náði aldrei að slíta Fylki frá sér og urðu lokatölur 18-18 eftir að staðan í hálfleik var 8-8.  Nokkur hiti var í leiknum og nokkuð um mistök hjá báðum liðum enda mikið í húfi fyrir þessi lið sem sitja nú í 9. og 10. sæti eftir leik dagsins með jafnmörg stig. Hildur Öder fékk að sjá rauða spjaldið um miðjan seinni hálfleikinn og tók Hulda Dís hennar stöðu í vörn og stóð sig vel.  Þegar fimm mínútur voru til leiksloka var Selfoss tveimur mörkum yfir í stöðunni 16-18.  Selfoss klikkaði þá á dauðafæri, boltinn fór í stöng.  Svo skoraði Selfoss úr hraðaupphlaupi en fengu því miður dæmda á sig línu.  Selfoss vann boltann þegar 50 sekúndur voru eftir og héldu honum út leikinn án þess að skora þrátt fyrir tvö góð tækifæri til þess, góð vörn Fylkis kom í veg fyrir það.  Ekkert gekk upp í lokinn hjá Selfoss og jafntefli staðreynd.  Vörn og markvarsla Selfoss var frábær í dag og sóknin ágæt en Fylkir var líka að spila góða vörn og átti frábæra markvörslu. 

Selfoss setur að sjálfsögðu stefnuna á að komast í úrslitakeppnina en liðið hefur alla burði til þess og nóg af stigum eftir í pottinum.  Liðið kemur aðeins laskað til leiks eftir jólafrí þar sem óvenju margir leikmenn eru meiddir.  Í dag spilaði liðið án Tinnu Soffíu sem er meidd. Dagmar, Hulda, Þuríður og Elena eru allar tæpar en gátu klárað sinn leik í dag.  Vonandi verða þær fljótar að koma til baka og mæta 100% til leiks í næstu viku.

Það verður spilað þétt í Olís-deild kvenna á næstunni.  Nokkuð er um ferðalög framundan hjá Selfoss-stelpum en liðið á þrjá leiki í næstu viku, þar af einn í Vestmannaeyjum og einn á Akureyri. Auk þess er leikur á móti Val hér heima.  Það verður því nóg að gera og mikið álag á leikmönnum.

Markaskorun í dag var eftirfarandi: Þuríður 5 mörk, Kara Rún 4 mörk, Hulda Dís 3 mörk, Carmen 2 mörk, Hildur 2 mörk og Hrafnhildur 2 mörk. Áslaug varði vel í markinu og var með 40% markvörslu.

Markahæst í liði Fylkis var Selfyssingurinn Díana Sigmarsdóttir með 5 mörk. 

Næstu leikir hjá Mfl. kvenna:

KA/Þór – Selfoss, sunnudaginn 19. janúar, klukkan 13:30

Selfoss – Valur, þriðjudaginn 21. janúar, klukkan 19:30 í Íþróttahúsi Vallaskóla

ÍBV – Selfoss, laugardaginn 25. janúar, klukkan 13:30

Á mynd: Þuríður Guðjónsdóttir sem var markahæst í leiknum í dag með 5 mörk

Myndina tók: Inga Heiða Heimisdóttir

Tags: