Keppni hafin í Olísdeildinni – Fyrsti heimaleikur á þriðjudag

Keppni hafin í Olísdeildinni – Fyrsti heimaleikur á þriðjudag

Keppni í Olísdeildinni í handbolta hófst á laugardag þegar Selfyssingar heimsóttu Fram í Framhúsið í Safamýri.

Það var við ramman reip að draga og unnu Framarar öruggan tólf marka sigur 33-21 eftir að staðan í hálfleik var 18-10.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var langatkvæðamest Selfyssinga með 14 mörk, Carmen Palamariu skoraði 4, Harpa Sólveig Brynjarsdóttir 2 og Elena Birgisdóttir 1 mark.

Næsti leikur er á heimavelli gegn FH á þriðjudag og hefst kl. 19:30 í íþróttahúsi Vallaskóla.

Hér fylgir stutt samantekt Magnúsar Matthíassonar um leikinn sem birtist á fésbókinni.

Flestir gerðu sér grein fyrir því áður en blásið var til leiks að á brattann væri að sækja þegar stelpurnar okkar heimsóttu Framara.

Fram án efa með eitt sterkasta lið landsins með sex núverandi eða fyrrverandi landsliðskonur í hópnum. Spennustigið var að sögn ansi hátt hjá stelpunum okkar inni í klefa fyrir leik enda ekki á hverjum degi sem spilað er við nítjánfalda Íslandsmeistara.

Meðalaldur byrjunarliðs okkar var, fljótt á litið, rétt ofan við bílpróf. Einhverjar meiddar eins og gengur.

Þetta var að mjög mörgu leiti góður leikur hjá stelpunum okkar. Þegar á völlinn var komið var virtist spennan hafa vikið fyrir baráttu og leikgleði. Framarar vissulega betri á mörgum sviðum en okkar stelpur létu svo sannarlega finna fyrir sér, sérstaklega í vörninni.

Jákvætt við leikinn var að liðið sýndi góða barátta, góðan liðsandi og barðist allan leikinn þrátt fyrir mótbyr. Stelpurnar mega vera sáttar eftir þennan leik, þrátt fyrir tap. Við erum að safna í reynslubankann og eigum svo sannarlega eftir að taka vel út og það strax í vetur, svo mikið er víst.