Landsbankamótið fer fram um helgina

Landsbankamótið fer fram um helgina

Um helgina fer fram á Selfossi hið árlega Landsbankamót í handbolta. Nú verður í þriðja skipti keppt í 7. flokki drengja og stúlkna 10 ára og yngri. Handknattleiksdeild Umf. Selfoss heldur mótið sem er jafnframt hluti af Íslandsmeistaramótinu.

Um 900 keppendur eru skráðir á mótið á Selfoss um helgina. Búast má við að annar eins fjöldi af foreldrum og liðsstjórum heimsæki Selfoss, þannig má áætla að vel yfir 2.000 manns sæki Selfoss heim um helgina.

Alls eru 175 lið skráð til leiks en leikið verður í íþróttahúsi Vallaskóla og Iðu, íþróttahúsi FSu. Liðin gista í Vallaskóla og eru þar í mat. Á kvöldin verða kvöldvökur þar sem m.a. Eurovision-stjarnan Friðrik Dór mætir á svæðið.

Mótið hefst á föstudag kl. 16:00 og stendur fram yfir hádegi á sunnudag. Það koma um 80 starfsmenn að mótinu sem krefst mikillar skipulagningar. Þökk sé öflugu foreldrastarfi hjá deildinni og reynslu í svona mótahaldi að dæmið gengur upp. Þetta er í tólfta árið í röð sem svona stórt handboltamót er haldið á Selfossi. Landsbankinn á Selfossi er sem fyrr aðalstyrktaraðili yngri flokka starfs handknattleiksdeildar og mótið ber nafn bankans sjöunda árið í röð.

Unglingaráð þakkar Landsbankanum á Selfossi frábæran stuðning undanfarin ár.