Magnaður sigur Selfyssinga í bikarnum

Magnaður sigur Selfyssinga í bikarnum

Selfyssingar slógu ÍBV út úr Coca Cola bikarnum eftir framlengdan leik í gær, lokatölur urðu 33-32.

Leikurinn hófst af miklum krafti og leiddu heimamenn með einu til tveimur mörkum fyrri hluta fyrri hálfleiks. Gestirnir náðu fyrst forystu í leiknum á 22. mínútu og leiddu í hálfleik með þrem mörkum, 13-16.

ÍBV hélt forystunni stóran hluta seinni hálfleiks en náðu aldrei að hrista baráttuglaða Selfyssinga af sér. Helgi Hlynsson fór á kostum í marki heimamanna og átti stóran þátt í að Selfyssingar jöfnuðu metin þegar fimm mínútur voru til leiksloka. Það var lítið skorað seinustu mínútur leiksins sem endaði 28-28 og þurfti því að grípa til framlengingar.

Í framlengingunni voru Selfyssingar ávallt skrefinu á undan og leiddu 31-29 eftir fyrri hálfleik framlengingar. Eyjamenn sóttu að Selfyssingum en tókst ekki að jafna og varði Helgi seinasta skot þeirra úr aukakasti eftir að leiktíminn rann út.

Nánar er fjallað um leikinn á vef Sunnlenska.is.

Mörk Selfoss: Teitur Örn Einarsson 7, Andri Már Sveinsson og Einar Sverrisson 6, Elvar Örn Jónsson 5,Alexander Már Egan 3,  Guðni Ingvarsson 2, Eyvindur Hrannar Gunnarsson og Guðjón Ágústsson 1. Helgi Hlynsson varði 25 skot og Grétar Ari Guðjónsson 1.

Næsti leikur Selfyssinga er einnig á heimavelli gegn ÍBV í Olís-deildinni kl. 18:30 fimmtudaginn 27. október.

Helgi Hlynsson var hetja Selfyssinga í bikarleiknum.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/JÁE