Mikilvægur sigur í toppbáráttunni

Mikilvægur sigur í toppbáráttunni

Meistaraflokkur karla hélt áfram sigurgöngu sinni og sigraði lið KR á föstudaginn og situr því áfram sem fastast í þriðja sæti deildarinnar. 

Þegar flautað var til leikhlés leiddi Selfoss með einu marki, 14-15, eftir að hafa verið undir hluta af fyrri hálfleiknum. Okkar menn komu vel stemmdir inn í seinni hálfleikinn og náðu fjögurra marka forskoti, 17-21, og voru á góðu skriði.  Þá kom kafli mikilla mistaka og lítið skorað. KR náði að minnka muninn og þegar rúmar 10 mínútur voru eftir var staðan jöfn, 21-21 og allt opið. Selfoss náði að klára leikinn með marki rétt fyrir lok leiks og sigur í höfn 21-22.  Eins og glöggir lesendur sjá þá var eiðeins eitt mark skorað á síðustu tíu mínútum leiksins og mjög fá mörk skoruð í heildina í seinni hálfleiknum.  Markmenn beggja liða vörðu ágætlega og Sebastian hélt Selfyssingum inní leiknum á köflum.

Atli Kristinsson náði sér í rautt spjald þegar fjórar sekúndur voru eftir af leiknum. Nú er bara að vona að aganefndin taki mjúklega á þessu spjaldi en annars tekur hann út leikbann í næsta leik. Sá leikur er hér á Selfossi á móti Stjörnunni þar sem ekkert annað en sigur kemur til greina en baráttan á toppnum er hörð og hnífjöfn.  Stjarnan náði toppsætinu í síðustu umferð og er þremur stigum á undan Selfoss í deildinni. 

Það er gaman að geta þess að í leiknum á móti KR fékk enn einn ungur leikmaður Selfoss að spreyta sig en það var Hergeir Grímsson sem spilaði sinn fyrsta deildarleik með meistaraflokki en hann er aðeins sautján ára gamall.

Markaskorun í leiknum var eftirfarandi: Atli Kristinsson 5, Einar Sverrisson 4, Andri Hrafn Hallsson 4, Atli Hjörvar Einarsson 4, Jóhann Erlingsson 3, Andri Már Sveinsson 2.

Sverrir Andrésson stórð í markinu fyrri hálfleikinn og Sebastian þann síðari. 

Minnum aftur á næsta leik liðsins sem er heimaleikur, föstudaginn 21. mars klukkan 20:00 á móti Stjörnunni – hvetjum fólk til að fjölmenna á pallana, nú þurfa strákarnir stuðning Selfyssinga til að komast alla leið.

Áfram Selfoss!

Á mynd: staðan í 1.deild karla

Tags: