Ómar Ingi íþróttamaður ársins og Þórir þjálfari ársins

Ómar Ingi íþróttamaður ársins og Þórir þjálfari ársins

Selfyssingarnir Ómar Ingi Magnússon og Þórir Hergeirsson áttu klárlega sviðið í kvöld!

Ómar Ingi Magnússon var  útnefndur íþróttamaður ársins 2021 af Samtökum íþróttafréttamanna.

Ómar leikur með þýska liðinu Magdeburg og hefur verið lykilmaður þar sem og í A-landsliði karla. Ómar Ingi var markakóngur efstu deildar í Þýskalandi í vor og átti næstflestar stoðsendingar. Þá var hann valinn í úrvalslið ársins í Þýskalandi. Ómar hefur haldið uppteknum hætti í haust og verið lykilmaður í sterku liði Magdeburgar, sem trónir á toppi þýsku deildarinnar, enda meðal markahæstu og bestu leikmanna í deildinni. Magdeburg vann Evrópudeildina í handbolta og heimsmeistaramót félagsliða þar sem liðið vann Barcelona í úrslitum í haust. Þetta er í fyrsta sinn sem Ómar Ingi Magnússon er meðal tíu efstu í kjörinu á íþróttamanni ársins. Ómar fékk 445 stig í kjörinu, 58 stigum fleiri en Kolbrún Þöll sem lenti í öðru sæti. Þá lenti Bjarki Már Elísson í 8. sæti kjörsins með 109 stig.

Þórir Hergeirsson var síðan kjörinn þjálfari ársins 2021 af Samtökum íþróttafréttamanna.

Þórir er þjálfari kvennalandsliðs Noregs og varð liðið heimsmeistari fyrr í mánuðinum, en það er í áttunda sinn sem Þórir stýrir Noregi til sigurs á stórmóti. Þá fékk Noregur brons á Ólymp­íu­leik­un­um í Tokyo og varð Evr­ópu­meist­ari í árs­lok 2020. Þetta er fjórða sinn sem Þórir er meðal þriggja efstu í kjörinu á þjálfara ársins en hann endaði í 2. sæti kjörsins 2012, 2015 og 2017. Þórir hlaut 131 stig, 63 stigum fleiri en Selfyssingurinn Vé­steinn Haf­steins­son sem lenti í öðru sæti, en Vésteinn þjálf­aði gull- og silf­ur­verðlauna­haf­ana í kringlukasti á ÓL í Tókýó.


Mynd: Mummi Lú (HSÍ) og Mbl.is