Öruggur sigur á HK

Öruggur sigur á HK

Selfoss vann góðan sigur á HK þegar liðin mættust í Vallaskóla í fyrsta leik umspilsins um sæti í Olís deild kvenna í gær. Mikil barátta var í leiknum enda mikið undir fyrir bæði lið og bar leikurinn þess merki þar sem nokkuð var um tapaða bolta og mistök.

HK skoraði fyrsta mark leiksins en Selfoss átti næstu fjögur mörkin og staðan orðin 4-1 eftir sjö mínútur. Hvorugt lið skoraði mark næstu fimm mínúturnar en þá tóku HK stelpur við sér og komust yfir 5-6 þegar um tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum. Selfyssingar þéttu raðirnar og sigu rólega fram úr HK þegar leið á hálfleikinn. Mestur var munurinn fjögur mörk áður en flautað var til leikhlés í stöðunni 12-9 fyrir Selfoss.

Heimastelpur komu vel stemmdar inn í seinni hálfleikinn, skoruðu fjögur fyrstu mörkin og staðan orðin 16-9 áður en HK náði loksins að koma boltanum í netið þegar rúmar tíu mínútur liðnar af seinni hálfleiknum. Má segja að Selfoss hafi lagt grunninn af sigrinum á þessum kafla sem náði mest níu marka forystu undir lok leiks. Lokatölur urðu 26-18 fyrir Selfoss sem er með sigrinum komið með 1-0 forystu í umspilinu.

Nánar er fjallað um leikinn á vef Sunnlenska.is.

Markaskorun Selfyssinga: Dijana 9, Kristrún 5, Perla Ruth 5, Adina 4, Carmen 2 og Ída 1. Katrín Ósk átti stórleik í markinu, var með 22 varin skot eða 58% markvörslu. Dröfn kom í markið undir lok leiks og varði 1 skot og var með 33% markvörslu.

Næsti leikur liðanna fer fram sunnudaginn 24. apríl klukkan 14.00 í Digranesi. Það lið sem fyrr vinnur tvo leiki mætir annað hvort KA/Þór eða FH í úrslitum um sæti í Olís-deildinni en Selfoss stelpur eru ákveðnar í að halda sæti sínu þar.

she

Dijana var markahæst Selfyssinga í leiknum.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/Jóhannes Ásgeir