Öruggur sigur Selfyssinga í Hleðsluhöllinni

Öruggur sigur Selfyssinga í Hleðsluhöllinni

Meistaraflokkur karla lagði Aftureldingu örugglega með átta mörkum í Hleðsluhöllinni í kvöld, 35-27.

Leikurinn byrjaði nokkuð jafnt og var staðan 3-3 eftir sjö mínútna leik. Selfoss tók svo fljótlega frumkvæðið í leiknum og var komið þremur mörkum yfir, 7-4 eftir 12 mínútur. Þeir juku forskotið í fimm mörk og staðan var 19-14 í hálfleik. Selfyssingar slepptu aldrei tökunum á leiknum og var munurinn fjögur til sex mörk mestallan seinni hálfleikinn. Strákarnir sigldu síðan í höfn glæsilegum átta marka sigri, 35-27.

Mörk Selfoss: Haukur Þrastarson 11/2, Magnús Öder Einarsson 6, Einar Sverrisson 5/1, Alexander Már Egan 5, Atli Ævar Ingólfsson 4, Ísak Gústafsson 2, Hannes Höskuldsson 1, Daníel Karl Gunnarsson 1

Varin skot: Alexander Hrafnkelsson 14 (36%)

Selfoss er því í 4. sæti deildarinnar með 23 stig en aðeins munar þremur stigum á liðunum í 1. -7. sæti deildarinnar. Næsti leikur strákanna er eftir viku, gegn Stjörnunni í Garðabænum, þar sem strákarnir eiga harma að hefna.

Haukur var að venju markahæstur í liði Selfoss, nú með 11 mörk.
Umf. Selfoss / JÁE