Leiðin að Íslandsmeistaratitlinum

Miðvikudagurinn 22. maí 2019   Dagurinn markar tímamót í íþróttalífi á Selfossi. Þann dag unnu Selfyssingar fyrsta stóra titillinn í boltaíþrótt á Íslandi er þeir unnu Hauka í frábærum leik í Hleðsluhöllinni á Selfossi. Verður þessi titill án efa lengi í minnum hafður. Í fyrsta skipti í sögu handknattleiksdeildar Selfoss vann meistaraflokkur karla Íslandsmeistaratitil í efstu deild. Lið frá Selfossi hafði aðeins einu sinni áður komist svo nálægt titlinum en það var árið 1992. Þá beið meistaraflokkur karla, svokallað „Gullaldarlið Selfoss“, lægri hlut gegn FH í úrslitarimmu um titilinn. Það var í fyrsta skipti sem núverandi fyrirkomulag um útsláttakeppni fór fram.

Vikurnar og dagana fyrir leikinn í vor byggðist upp mikil spenna í bæjarfélaginu sem náði hámarki þetta miðvikudagskvöld. Alls staðar mátti sjá menn, konur og börn klæðast vínrauðu. Fyrirtækin flögguðu Selfossfánum og í pottunum var spjallað um möguleika liðsins og spáð í spilin. Leikurinn sjálfur náði aldrei að verða spennandi því Selfyssingar hreinlega kjöldrógu Hauka. Fagnaðarlætin í leikslok í Hleðsluhöllinni og síðar út á Tryggvatorgi og inn á Hótel Selfoss voru ógleymanleg og verður sjálfsagt eitthvað sem menn munu ræða um ókomna tíð. Hér verður farið yfir aðdragandann og leiðina að sjálfum Íslandsmeistaratitlinum 2019.

 

Selfoss endaði í 2. Sæti í Olísdeildinni 2019

Karlalið Selfoss endaði Olísdeildina tíma­bilið 2018–2019 með 34 stig og hafnaði í öðru sæti á eftir Haukum sem voru með jafnmörg stig. Þeir höfðu betur í innbyrðis viðureignum liðanna og urðu því deildarmeistarar. Var þetta jöfnun á besta árangri Selfoss frá því árið áður, en þá voru þrjú lið á toppi deildarinnar með 34 stig, ÍBV, Selfoss og FH. Röðuðust þau í þessa röð út frá innbyrðis viðureignum.

 

Lokastaðan í Olísdeildinni 2019:

1        Haukar          22       15      4        3        620      41        34

2        Selfoss           22       16      2        4        629      51        34

3        Valur             22       15      3        4        618      89        33

4        FH                  22       11      5        6        605      34        27

5        ÍBV                22       10      4        8        627      3          24

6        Afturelding    22       9        5        8        593      10        23

7        ÍR                   22       7        5        10      591      -8         19

8        Stjarnan        22       8        2        12      586      -35       18

9        KA                  22       7        3        12      570      -21       17

10      Fram             22       7        1        14      567      -27       15

11      Akureyri        22       5        2        15      562      -61       12

12      Grótta           22       3        2        17      501      -76       8

 

Úrslitakeppnin hófst 20. apríl. Í 8-liða úrslitum áttust við: Haukar – Stjarnan, Selfoss – ÍR,

Valur – Afturelding og FH – ÍBV.

 

8-liða úrslit: Selfoss – ÍR

 

Naumur sigur á ÍR í fyrsta leik

Selfoss mætti ÍR í fyrsta leik í 8-liða útslitum í Hleðsluhöllinni laugardaginn 20. apríl. Leikurinn var jafn framan af en Selfoss náði fjögurra marka forskoti undir lok fyrri hálfleiks. Staðan í hálfleik var 15-13. Selfoss hafði frumkvæðið mest allan seinni hálfleikinn en þegar tvær mínútur voru eftir jafnaði ÍR 26-26 og eins og oft áður voru lokamínúturnar æsispennandi. Elvar Örn skoraði sigurmarkið þegar um 40 sekúndur voru eftir af leiknum. ÍR-ingar fengu tækifæri til að jafna og ná leiknum í framlengingu en skotið geigaði og Selfoss fór með eins marks sigur af hólmi, 27-26.

            Mörk Selfoss: Elvar Örn 9/3, Haukur 7, Alex­ander Már 4, Nökkvi Dan 3, Hergeir 2, Árni Steinn 1 og Atli Ævar 1. Varin skot: Sölvi 12 (32%).

            Mörk ÍR: Björgvin Þór 7, Sturla 5/5, Kristján Orri 4, Pétur Árni 4, Sveinn Andri 2, Arnar Freyr 3 og Þrándur 1.Varin skot: Stephen 14 (34%).

 

Dramatískur sigur og Selfoss áfram

Annar leikur Selfoss og ÍR fór fram í Austur­bergi mánudaginn 22. apríl. Selfoss byrjaði betur en ÍR-ingar tóku síðan við og leiddu leikinn allt fram að 55. mínútu. ÍR hafði yfirhöndina í fyrri hálfleik og komst mest fimm mörkum yfir. Góður kafli hjá Selfyssingum undir lok fyrri hálfleiks skilaði þeim inn í leikhlé aðeins tveimur mörkum undir, 18-16. Selfoss jafnaði leikinn í stöðunni 20-20 en aftur sigu ÍR-ingar fram úr. Það var ekki fyrr en á 55. mínútu að Selfoss náði aftur að jafna leikinn og komst tveimur mörkum yfir, 26-28. Lokamínúturnar voru dramatískar, Pawel varði þrjú af sínum fjórum skotum á síðustu fjórum mínútum leiksins. ÍR hafði tækifæri til að jafna á lokasekúndunum en boltinn hafnaði í stönginni og eins marks sigur Selfoss, 28-29, staðreynd.

            Mörk Selfoss: Haukur 7, Hergeir 6/3, Árni Steinn 4, Elvar Örn 4/1, Nökkvi Dan 2, Atli Ævar 2, Guðni 2, Guðjón Baldur 1 og Pawel 1. Varin skot: Pawel 4 (27%) og Sölvi 2 (10%).

            Mörk ÍR: Pétur Árni 7, Björgvin Þór 7, Sturla 4/3, Bergvin Þór 3, Þrándur 3, Sveinn Andri 2 og Kristján Orri 2.Varin skot: Stephen 10/2 (26%).

 

Selfoss vann einvígið við ÍR 2-0. Í hinum einvígunum unnu Haukar Stjörnuna 2-0, Valur vann Aftureldingu 2-0 og ÍBV sigruðu FH 2-0. Í undanúrslitum mættust Selfoss og Valur annars vegar og Haukar og ÍBV hins vegar.

 

Undanúrslit: Selfoss – Valur

 

Sigur á Val eftir framlengingu í fyrsta leik

Selfoss mætti Val í fyrsta leiknum í Hleðsluhöllinni þriðjudaginn 30. apríl. Leikurinn byrjaði með miklum hraða og var allt í járnum til að byrja með. Valur náði frumkvæðinu um miðbik hálfleiksins. Selfyssingar náðu síðan að jafna leikinn aftur, en staðan var jöfn í hálfleik 17-17. Í síðari hálfleik voru liðin aðeins mistækari, en boltinn datt meira fyrir Val í byrjun. Rúmar átta mínútur voru liðnar af hálfleiknum þegar fyrsta markið kom hjá Selfyssingum. Valsmenn náðu aftur forystunni og var hún fjögur mörk þegar mest var. Selfoss vann sig aftur inn í leikinn og jöfnuðu þegar um átta mínútur voru eftir. Við tóku spennandi lokamínútur sem enduðu með því að Selfoss knúði fram framlengingu 30-30. Í framlenginunni fóru Selfyssingar af stað af miklum krafti og skoruðu þrjú fyrstu mörkin. Valsmenn náðu að saxa á þessa forystu en höfðu ekki erindi sem erfiði. Lokatölur 35-34 fyrir Selfoss.

   Mörk Selfoss: Haukur 13, Elvar Örn 5/2, Nökkvi Dan 5/1, Árni Steinn 5, Guðni 4, Hergeir 2 og Guðjón Baldur 1. Varin skot: Sölvi 10 (33%), Pawer 4 (22%).

   Mörk Vals: Anton 11/5, Róbert Aron 6, Sveinn Aron 4, Ýmir Örn 4, Vignir 3, Ásgeir Snær 2, Daníel Freyr 1, Þorgils Jón 1, Alex­ander Örn 1 og Orri Freyr 1. Varin skot: Daníel Freyr 10 (24%) og Einar Baldvin 2 (66%).

 

Sigur sóttur á Hlíðarenda í öðrum leik

Selfoss mætti Valsmönnum í öðrum leik liðanna á Hlíðarenda föstudaginn 3. maí. Leikurinn byrjaði með miklum hraða þar sem mikið var skorað þó markverðirnir hefðu varið vel. Valur náði frumkvæðinu en Selfoss vann sig síðan inn í leikinn og jafnframt róaðist hann. Selfoss náði síðan frumkvæðinu, en leikurinn hélt þó áfram að vera jafn. Selfoss leiddi með einu marki í hálfleik, 15-16. Í síðari hálfleik hélt Selfoss áfram forystunni og bættu heldur í. Værð kom yfir menn þeg­ar Selfoss gat aukið forskot sitt í fjögur mörk. Valsmenn nýttu sér það og breyttu stöðunni úr 15-18 í 19-18. Patrekur tók þá leikhlé og skerpti á sínum mönnum sem komust aftur á rétta braut og sigldu eins marks sigri í höfn 31-32.

   Mörk Selfoss: Elvar Örn 8/2, Haukur 6, Hergeir 6, Árni Steinn 5, Alexander Már 4, Guðni 2 og Atli Ævar 1. Varin skot: Sölvi 13 (30%).

   Mörk Vals: Anton 9, Róbert Aron 7, Vignir 6, Sveinn Aron 5, Ásgeir Snær 2, Steven Tobar 1 og Ýmir Örn 1. Varin skot: Daníel Freyr 8 (35%) og Einar Baldvin 5 (26%).

 

Sópurinn á lofti á Selfossi

Selfoss mætti Valsmönnum í þriðja leik liðanna í troðfullri Hleðsluhöll mánudaginn 6. maí. Leikurinn fór strax á fulla ferð eins og hinir tveir leikrnir í seríuunni. Liðin skiptust á að halda forystunni en munurinn var aldrei meiri en tvö mörk og jafnt á flestum tölum. Þegar nokkrar mínútur voru eftir af hálfleiknum komu Selfyssingar með áhlaup á Valsara sem misstu einbeitinguna. Staðan var því 17-14 í hálfleik. Síðari hálfleikur var í jafnvægi í byrjun en Selfyssingar héldu þó 2–3 marka forskoti eða þar til tíu mínútur voru eftir af leiknum. Þá stigu heimamenn á bensíngjöfina og juku forystuna í fimm mörk. Valsmenn virtust missa trúna á sigri á sama tíma. Það breytti því þó ekki að Valsmenn skoruðu þrjú mörk í röð og minnkuðu muninn í 28-26 og hefðu getað bætt við einu marki í viðbót. Það var of lítið og of seint og Selfyssingar luku leiknum með nokkuð traustvekjandi hætti, 29-26.

   Mörk Selfoss: Elvar Örn 6/3, Hergeir 5, Árni Steinn 4, Haukur 4, Nökkvi Dan 3, Guðni 3, Atli Ævar 2, Alexander Már 1 og Pawel 1. Varin skot: Pawel 8 (32%), Sölvi 1 (10%).

   Mörk Vals: Anton 8/2, Ýmir Örn 7, Róbert Aron 4, Ásgeir Snær 2, Sveinn Aron 2, Orri Freyr 1, Vignir 1 og Arnór Snær 1. Varin skot: Daníel Freyr 11/1 (28%).

 

Selfyssingar unnu einvígið við Val í undanúrslitunum 3-0. Á sama tíma unnu Haukar einvígi sitt við ÍBV 3-1. Selfoss var þar með komið í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í annað skipti í sögu félags­ins. Seinast lék liðið við FH vorið 1992, fyrir 27 árum, og beið lægri hlut 1-3 eins og frægt er orðið.

 

Útslitaeinvígi: Selfoss – Haukar

 

Selfoss tók forystuna og komst 1–0 yfir í úrslitaeinvíginu

Fyrsti leikurinn í úrslitaeinvígi Selfoss og Hauka fór fram í Schenkerhöllinni á Ásvöllum þriðjudaginn 14. maí. Haukar höfðu frum­kvæðið í byrjun leiks en um miðjan fyrri hálfleikinn náðu Selfyssingar frábærum 1-6 kafla þar sem þeir breyttu stöðunni úr 6-8. Selfoss var sterkari aðilinn út fyrri hálfleik og staðan í leikhléi 11-14. Selfyssingar héldu forystunni fyrstu tíu mínútur síðari hálfleiks en Haukar voru sterkari á þessum kafla og jöfnuðu 17-17. Sölvi Ólafsson, markmaður Selfoss, kom þá og lokaði rammanum. Hann var alveg hreint magnaður í leiknum, með 46% markvörslu, og þar af varði hann þrjú vítaskot. Lokakafli leiksins var algjörlega frábær hjá Selfyssingum sem skoruðu átta mörk gegn tveimur á síðustu níu mínútunum og tryggðu sér öruggan fimm marka sigur, 22-27.

   Mörk Selfoss: Elvar Örn 6/2, Hergeir 5, Atli Ævar 5, Haukur 3, Árni Steinn 2, Nökkvi Dan 2, Alexander Már 2 og Guðni 2. Varin skot: Sölvi 18 (46%).

   Mörk Hauka: Daníel Þór 7, Atli Már 6/1 , Heimir Óli 4, Einar Pétur 2, Adam Haukur 1, Tjörvi 1 og Ásgeir Örn 1. Varin skot: Grétar Ari 11 (31%).

 

Flautumark og eins marks tap í Hleðsluhöllinni í öðrum leik

Annar leikur liðanna fór fram í Hleðsluhöllinni föstudaginn 17. maí. Jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar en þá tóku Haukarnir við sér og náðu tveggja marka forskoti, 6-8. Selfyssingar hrukku í gang og það gekk allt upp, 8-1 kafli breytti stöðunni í 14-9. Staðan í hálfleik var 14-11. Haukar byrjuðu seinni hálfleik betur og náðu að jafna í 18-18. Selfyssingar voru skrefinu á undan í framhaldinu en leikurinn var æsispennandi og mikið um mistök. Haukar náðu frumkvæðinu á lokamínútunum og komust í 25-26 þegar ein og hálf mínúta var eftir. Selfyssingar jöfnuðu þegar 36 sekúndur voru eftir og Haukar gátu tryggt sér sigurinn í næstu sókn. Það gerði Daníel Þór á lokasekúndum leiksins með flautumarki. Lokatölur 26-27.

   Mörk Selfoss: Haukur 7, Nökkvi Dan 5/2, Elvar Örn 5, Árni Steinn 4, Alexander Már 2, Atli Ævar 1, Hergeir 1 og Guðni 1. Varin skot: Sölvi 10 (31%).

   Mörk Hauka: Orri Freyr 8/3, Tjörvi 5, Daníel Þór 4, Adam Haukur 3, Halldór Ingi 3, Atli Már 2, Einar Pétur 1/1 og Heimir Óli 1. Varin skot: Grétar Ari 10 (35%) og Andri 6/3 (50%).

 

Ótrúlegur sigur á Ásvöllum

Þriðji leikur liðanna var í Schenkerhöllinni sunnudaginn 19. maí. Liðin skiptust á að halda forystu fyrstu mínútur leiksins. Um miðbik hálfleiksins tóku Haukar frumkvæðið og náðu þriggja marka forskoti. Patrekur tók þá leikhlé, stöðvaði blæðinguna og endaði hálfleikurinn 15-14. Haukar héldu frumkvæðinu áfram þó munurinn væri áfram lítill. Þegar um tuttugu mínútur voru eftir af leiknum tóku Haukar svo afgerandi forystu og þegar átta mínútur voru eftir var munur­inn kominn upp í fimm mörk, 26-21. Þá skelltu Selfyssingar í lás í vörninni og Sölvi hreinlega negldi fyrir markið. Selfoss náði að jafna leikinn 27-27 og þannig var staðan þegar venjulegur leiktími rann út og var því fram­lengt. Í framlengingu skiptust liðin á að gera mistök, enda bæði lið að spila hrikalega sterka vörn. Selfyssingar náðu þó að skora fyrsta og síðasta mark fyrri hálfleiks framlengingar og leiddu með einu marki 28-29. Í síðari hálfleik framlengingarinnar voru Selfyssingar sterkari og lönduðu góðum sigri, 30-32.

Mörk Selfoss: Atli Ævar 10/1, Elvar Örn 6, Hergeir 5, Haukur 4, Árni Steinn 2, Guðjón Baldur 2, Nökkvi Dan 1, Guðni 1 og Alexander Már 1. Varin skot: Sölvi 14 (54%) og Pawel 7 (29%).

Mörk Hauka: Brynjólfur Snær 7, Adam Haukur 6, Orri Freyr 5/1 , Heimir Óli 4, Tjörvi 4, Daníel Þór 3 og Ásgeir Örn 1. Varin skot: Grétar Ari 12 (31%) og Andri 4/2 (50%).

 

Íslandsmeistaratitillinn innan seilingar

Þegar hér var komið sögu í úrslitaeinvíginu var staðan 2-1 fyrir Selfoss og mönnum því ljóst að með sigri í næsta leik tryggði Selfoss sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil. Eftirvæntingin var mikil í troðfullri Hleðsluhöllinni þegar flautað var til leiks miðvikudaginn 22. maí kl. 19:30. Haukar skoruðu fyrstu tvö mörk leiksins en Selfyssingar jöfnuðu í 3-3 og komust svo í 5-3. Haukar jöfnuðu í 7-7 en Selfoss komst aftur yfir og í hálfleik var staðan 16-11. Selfyssingar byrjuðu seinni hálfleik af krafti og gáfu ekkert eftir. Þeir náðu fljótt sjö marka forystu í seinni hálfleik og mestur varð munurinn ellefu mörk, þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum. Úrslitin voru því ráðin, Haukarnir búnir að kasta inn handklæðinu, og ljóst að Íslandsmeistaratitillinn myndi enda á Selfossi í fyrsta skipti í sögunni. Lokatölur urðu 35-25. Hleðsluhöllin var að sjálfsögðu pökkuð og stuðningsmenn Selfoss voru frábærir eins og alltaf. Allt trylltist í leikslok þegar titlinum var fagnað. Eftir leikinn keyrðu leikmenn og þjálfarar með bikarinn yfir brúna þar sem þeirra beið móttaka á torginu við Pylsuvagninn. Titlinum var fagnað með blysum, flugeldum, Ingó og Bessa Hressa langt fram á nótt.

Mörk Selfoss: Elvar Örn 11/2, Alexander Már 5, Árni Steinn 4, Haukur 4, Atli Ævar 4, Guðni 3, Guðjón Baldur 2, Nökkvi Dan 1 og Sverrir 1. Varin skot: Sölvi 15/1 (32%) og Pawel 1/1 (50%).

Mörk Hauka: Ásgeir Örn 6, Brynjólfur Snær 4, Einar Pétur 3/1, Tjörvi 3, Heimir Óli 2, Daníel Þór 2, Halldór Ingi 2, Orri Freyr 1/1, Grétar Ari 1 og Adam Haukur 1. Varin skot: Grétar Ari 8 (24%) og Andri 3/2 (23%).

 

Spennandi og skemmtilegir leikir

Leikir Selfoss í úrslitakeppninni voru spennandi og skemmtilegir og árangurinn sannarlega glæsilegur. Liðið spilaði níu leiki og vann átta. Leikirnir við ÍR unnust báðir með einu marki og sama á við um fyrstu tvo leikina við Val. Þriðji leikurinn gegn Val vannst með þremur mörkum. Sigurleikirnir þrír við Hauka unnust með fimm, tveimur og tíu mörkum. Eini tapleikurinn tapaðist með einu marki. Samtals skoraði Selfoss 272 mörk í leikjunum níu og fékk á sig 249 mörk.

 

Frábær árangur – Átta sigrar í níu leikjum

Laugard. 20. apríl     Selfoss – ÍR        27-26

Mánud. 22. apríl       ÍR – Selfoss        28-29

Þriðjud. 30. apríl Selfoss – Valur        35-34

Föststud. 3. maí Valur – Selfoss        31-32

Mánud. 6. maí    Selfoss – Valur        29-26

Þriðjud. 14. maí Haukar – Selfoss       22-27

Föstud. 17. maí Selfoss – Haukar        26-27

Sunnud. 19. maí Haukar – Selfoss       30-32

Miðvikud. 22. maí Selfoss – Haukar    35-25

 

Leikmaður                     Leikir Mörk Skot   Skot%   Stoðsend. Stol. Bolt. Tap. Bolt. Gult   2 min Rautt Br. Frík. Va. í vörn     Fráköst

Elvar Örn Jónsson           9        60     97     61%      35            4              15            2       6                 55         6                 9

Haukur Þrastarson          9        55     96     57%      55            17            14            3       6                 39         16               15

Hergeir Grímsson           9        31     55     56%      6              10            1              2       4                 53         5                 12

Árni Steinn Steinþórsson 9        31     61     50%      37            6              12            1       3                 35                            4

Atli Ævar Ingólfsson        8        26     34     76%      1                              4                                          2           1                 3

Nökkvi Dan Elliðason       9        22     36     61%      13            4              7                       3                 25         1                 3

Alexander Már Egan        9        19     29     65%      3              4              2                       3                 11         1                 14

Guðni Ingvarsson            9        19     22     86%      3              6              1                                          6           1                 2

Guðjón Baldur Ómarsson 9        6       10     60%                                      1                                          1           1                 4

Sverrir Pálsson               9        1       3       33%                      9                             2       7                 46         14               6

Ari Sverrir Magnússon     3        0       0       0%                                                                                                                  

Hannes Höskuldsson       9        0       0       0%                                                                                                                  

Tryggvi Þórisson             3        0       0       0%                                                                                    1                             

Ísak Gústafsson               2        0       0       0%                                                                                                                  

 

Leikmaður                     Leikir Varin Skot   Markv.  Mörk

Alexander Hrafnkelsson  2        0       0        0%        0/0

Pawel Kiepulski              9        33     93      26%      2/2

Sölvi Ólafsson                 9        121   269    32%      0/0

 

   – EÓS og ÖG tóku saman.