Upphaf handboltans á Selfossi

Fyrstu árin

Handknattleiksdeild Ungmennafélags Selfoss hóf göngu sína árið 1965, þótt formleg stjórn hennar sé ekki kosin fyrr en seinna. Þetta fyrsta starfsár hennar eru þátttakendur 25, og kepptu þeir á sex mótum. Er þar m.a. um að ræða undanrásir fyrir Landsmót UMFÍ á Laugarvatni, en þar kepptu stúlkur frá Selfossi fyrir Skarphéðinn og náðu í fimm stig fyrir héraðssambandið. Einnig keppti þetta lið við stúlkur úr Vestmannaeyjum og Hveragerði, unnu annan leikinn, en töpuðu hinum. Þjálfarar voru þau Bogi Karlsson, Stefán Magnússon og Kristín Guðmundsdóttir.

 

Næsta ár fóru fram reglubundnar æfingar í handknattleik, og voru sex mót haldin, flest eða öll heima fyrir. Eitthvað mun hafa verið um æfingar næstu árin, og 1969 er æft tvisvar í viku, aðeins þó í kvennaflokki og tekið þátt í einu móti.

 

1970 æfðu fjórir flokkar handknattleik á vegum handknattleiksráðs Umf. Selfoss. Voru þrír kvennaflokkar og einn karlaflokkur. Mjög góð æfingasókn var, urðu æfingar alls 270 og þátttakendur 35. Þjálfarar og aðalforgöngumenn æfinga voru þeir Magnús Jakobsson, Gísli Stefánsson og Gylfi Þ. Gíslason, er tók að sér nýjan flokk. Margir leikir voru leiknir, bæði innbyrðis og við aðkomumenn. Keppt var í handknattleik á HSK mótinu, og í úrslitakeppni móts í Hveragerði unnu handknattleiksmenn Umf. Selfoss.

 

Ársskýrsla handknattleiksráðs Umf. Selfoss 1971 er elsta skýrsla, sem til er heilleg um starfsemina. Þá skipa stjórn þau Sigríður Karlsdóttir, formaður, Karl Hillers og Gísli Stefánsson. Þá voru eingöngu haldnar æfingar. Voru þær 51 á tímabilinu 11. janúar til 27. mars og 7. júní til 28. nóvember. 120 æfingatímar lágu þá eftir konur, en 412 eftir stúlkur. Karlmenn munu ekki hafa æft. Þjálfarar voru margir: Gylfi Þ. Gíslason, Magnús Jakobsson, Erla Ingólfsdóttir, Elín Gunnarsdóttir, Sigríður Karlsdóttir og Guðrún Guðbjartsdóttir. Æft var í leikfimisal barnaskólans og á íþróttavellinum.

 

Stjórn kosin

Árið 1972 er fyrst hægt að tala um reglulega handknattleiksdeild innan Ungmennafélags Selfoss. Stjórn fimm kvenna var kjörin, en karlmenn komu ekki í deildina fyrr en seinna. Þátttakendur í deildinni voru þó, er árið var gert upp, 30 konur og 14 karlar. Gylfi Þ. Gíslason æfði einn flokk kvenna og einn keppnisflokk drengja úr Gagnfræðaskóla Selfoss. Náði hann allgóðum árangri á kappleikjum syðra. Þessi innkoma drengjaliðs sætti tíðindum að áliti einnar forystukvenna deildarinnar. Vissi deildarstjórnin ekkert um kappleikina syðra fyrr en er hópferðabílstjóri kom með reikning fyrir flutning á handknattleiksköppum til Reykjavíkur. En þá voru þeir líka skikkaðir til að ganga í deildina.

 

Á næsta ári, 1973, jók handknattleiksdeildin mjög umsvif sín. Félagar í deildinni voru nú 32, og farið var í sex ferðalög vegna kappmóta. Tekið var þátt í Íslandsmóti innan húss í 3. flokki drengja og Skarphéðinsmótinu, en í þeirri keppni urðu stúlkurnar í fyrsta sæti eftir sögulega leiki og kæru af mótherjanna hálfu. Þjálfarar deildarinnar voru þetta ár fjórir, og voru leiknir þrír æfingaleikir við Hveragerði og Stokkseyri, þar sem kvennalið voru í uppsiglingu.

 

Félagar handknattleiksdeildar voru orðnir 71 árið 1974. Kennarar voru fimm: Ole Sullan, Sigríður Þorsteinsdóttir, Kristín Steinþórsdóttir, Halldóra Gunnarsdóttir og Ólafur Sigurðsson, og kenndu alls 43 klukkustundir. Þátttaka í íþróttamótum var enn meiri en áður: til Íslandsmótsins fóru 10 þátttakendur, á Skarphéðinsmót 12, og kvennaflokkur 13 ára og yngri keppti á móti fyrir þann aldursflokk á Eyrarbakka. Var Stokkseyri þar sigurvegarinn, en Selfossliðið í öðru sæti. Svo fór einnig á Skarphéðinsmóti kvenna og drengja, að lið Umf. Selfoss lenti í öðru sæti.

 

Félagar í deildinni síðasta hálft annað ár hafa verið um 80. Æfingar í leikfimisal barnaskólans hafa verið allan veturinn 1975 og þennan vetur (1976). Inniæfingar voru fyrri part ársins 1975 fyrir pilta og stúlkur, en aðeins fyrir stúlkur haustmánuðina síðustu og veturinn 1976. Stúlkurnar eru í tveimur flokkum, 13 ára og yngri (3. flokkur) og eldri en 13 ára (1. flokkur). Tóku báðir flokkar þátt í Skarphéðinsmótinu og yngri stúlkurnar urðu Skarphéðinsmeistarar, sigruðu flokka frá Eyrarbakka og Stokkseyri. “En við í eldri flokknum urðum í þriðja sæti, æfðum ekki nógu vel undir mótið, var hóað saman og árangurinn eftir því”, segir Halldóra Gunnarsdóttir, sem hefur þjálfarð liðið með aðstoð stúlkna úr gangfræðaskólanum. Yngri stúlkurnar hafa komist upp í 25 á æfingu, áhuginn er svona mikill. En Halldóra bætir við: “Handbolti mun ekki ganga nógu vel á Selfossi fyrr en við fáum almennilegan sal. Þessi salur er of lítill – helmingi of lítill – til að vera löglegur keppnissalur.” Þrátt fyrir ötult starf Halldóru Gunnarsdóttur, sem var formaður á þessum fyrstu árum, tókst ekki að halda starfinu gangandi og var það eingöngu vegna aðstöðuleysis.

 

Deildin endurvakin

Deildin lá í dvala í tvö ár, frá 1976-1978 en var endurvakin á fundi sem haldinn var 12. október 1978 og var þar kosin ný stjórn undir formennsku Þórðar Tyrfingssonar. Bjartara var framundan, því nú var tekið í notkun nýtt og glæsilegt íþróttahús við Gagnfræðaskóla Selfoss, en þar var löglegur keppnisvöllur fyrir handknattleik.

 

Það kom strax í ljós að handboltaáhugi var mikill og félagar í deildinni 1979 voru 312. Má segja að mikill uppgangur hafi verið allt frá þessum tíma.Fljótlega kom í ljós, að mikill skortur var á þjálfurum og var efnt til þjálfaranámskeiðs þar sem leiðbeinendur voru þeir; Jóhann I. Gunnarsson, þáverandi landsliðsþjálfari og Jóhannes Sæmundsson liðsstjóri landsliðsins.”

 

Eftirfarandi texti er annars vegar unnin upp úr kafla úr afmælisriti Umf. Selfoss sem gefið var út á 40 ára afmæli félagsins árið 1976 sem Páll Lýðsson tók saman, hins vegar úr afmælisriti Braga sem kom út í tilefni 50 ára afmælis Ungmennafélags Selfoss sem stjórn deildarinnar á þeim tíma tók saman.