Sannfærandi sigur hjá strákunum

Sannfærandi sigur hjá strákunum

Selfyssingar sigruðu sinn fyrsta leik í Olís deild karla þegar þeir lögðu Aftureldingu með sannfærandi hætti á útivelli í gær.

Leikurinn var jafn í byrjun en fljótlega sigu heimamenn fram úr og leiddu 6-4 eftir 10 mínútur. Eftir þennan skjálfta okkar stráka tóku þeir við sér og komust loks yfir 10-11 en staðan í hálfleik var 13-15. Selfyssingar skoruðu fyrstu fjögur mörk seinni hálfleiks og lögðu þar grunninn að öruggum sigri 25-32.

Flottur varnarleikur og markvarsla hjá Grétari Ara Guðjónssyni, sem varði 18 skot, skóp góðan sigur auk þess sem Selfyssingar voru dyggilega studdir af fjölmörgum áhorfendum.

Nánar er fjallað um leikinn á vef Sunnlenska.is.

Markaskorun Selfyssinga var eftirfarandi: Elvar Örn Jónsson 9/4, Guðni Ingvarsson 7, Guðjón Ágústsson 6, Andri Már Sveinsson 3, Einar Sverrisson, Teitur Örn Einarsson og Hergeir Grímsson skoruðu 2 mörk hver og Eyvindur Hrannar Gunnarsson skoraði 1 mark.

Strákarnir sækja Valsmenn heim á Hlíðarenda föstudaginn 16. september kl. 19:30 og taka svo á móti Íslandsmeisturum Hauka i íþróttahúsi Vallaskóla mánudaginn 18. september kl. 19:30.

Markvörðurinn Grétar Ari Guðjónsson lagði góðan grunn að sigri Selfyssinga með 18 varin skot.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/JÁE