Selfoss áfram eftir spennutrylli í Safamýrinni

Selfoss áfram eftir spennutrylli í Safamýrinni

Selfoss er komið í átta liða úrslit í Coca Cola-bikarkeppni karla í handknattleik eftir sigur gegn Fram 32:31 í æsispennandi leik sem fram fór í Safamýri í gær.

Framarar höfðu frumkvæðið í leiknum allan fyrri hálfleik og leiddu í hálfleik 16-14. Það var ekki fyrr en sjö mínútur voru eftir af leiknum að Selfyssingar komust yfir en Framarar héldu í við Selfyssinga þar til Elvar Örn Jónsson skoraði sigurmark Selfyssinga úr vítakasti þegar ein og hálf mínúta var eftir. Heimamenn áttu seinustu sóknina en en Sölvi Ólafsson markvörður Selfyssinga varði úr dauðafæri á síðustu sekúndum leiksins og Selfyssingar hrósuðu sigri, 31-32.

Mörk Selfoss: Elvar Örn 12, Haukur Þrastarson 6, Guðjón Baldur Ómarsson 5, Hergeir Grímsson 4, Atli Ævar Ingólfsson 3, Guðni Ingvarsson1, Árni Steinn Steinþórsson 1.

Varin skot: Sölvi varði 8 skot (27%) og Pawel Kiepulski varði 3  (23%).

Þess má geta að systurfélg Selfoss, Mílan, er úr leik í bikarnum eftir 9 marka tap gegn Þrótti í fyrradag. Þróttarar leiddu í hálfleik, 11-16 og sigurinn var í raun aldrei í hættu. Aron Tjörvi Gunnlaugsson var markahæstur í liði Mílunnar með 8 mörk, Rúnar Hjálmarsson og Trausti Eiríksson skoruðu 4 mörk hvor, Eyþór Jónsson og Einar Sindri Ólafsson skoruðu 2 mörk og Viðar Ingólfsson og Ómar Vignir Helgason skoruðu sitt markið hvor. Ástgeir Sigmarsson varði 17 skot. 

Engin fjölmiðill mætti á leikinn en hægt er að sjá umfjöllun á Sunnlenska.is. Leikskýrslu má sjá hér.

Næst er síðasti leikur Selfoss fyrir jól, en þeir mæta Akureyri á sunnudaginn n.k.
____________________________________
Mynd: Elvar Örn átti stórleik í bikarnum
Umf. Selfoss / JÁE