Selfoss áfram í Olís-deildinni eftir sýningu í lokaleiknum

Selfoss áfram í Olís-deildinni eftir sýningu í lokaleiknum

Selfyssingar tryggðu sæti sitt í Olís-deildinni á næsta keppnistímabili með því að sópa KA/Þór úr einvíginu en Selfoss vann úrslitaeinvígið 3-0. Góður stígandi hjá ungu og efnilegu liði sem gaman hefur verið að fylgjast með í úrslitakeppninni eftir frekar erfiðan vetur.

Selfyssingar unnu stórsigur á KA/Þór í þriðja leik liðanna á heimavelli um síðustu helgi 38-23. Heimastúlkur voru ákveðnar frá fyrstu mínútu að klára þessa viðureign á heimavelli. Þær mættu gríðarlega einbeittar og voru yfir allan leikinn ef frá er talin staðan 1-1 í upphafi leiks. Það var mikið skorað og Selfoss gekk vel að koma boltanum í netið, en þær leiddu 21-12 þegar flautað var til leikhlés.

Selfoss hélt KA/Þór tíu mörkum frá sér stærstan hluta seinni hálfleiksins en síðustu tíu mínúturnar gáfu Selfyssingar enn frekar í og unnu að lokum 38-23 og má segja að norðanstelpur hafi aldrei séð til sólar í þessum leik.

Perla Ruth Albertsdóttir var markahæst með 11 mörk, Dijana Radojevic skoraði 8 mörk, Ída Bjarklind Magnúsdóttir 5 mörk, Kristrún Steinþórsdóttir og Adina Ghidoarca 4 mörk hvor, Hulda Dís Þrastardóttir skoraði 3 mörk og Ásta Margrét Jónsdóttir, Katla María Magnúsdóttir og Elva Rún Óskarsdóttir skoruðu allar 1 mark.

Katrín Ósk Magnúsdóttir var með 16 varða bolta sem gerir 48% markvörslu og Dröfn Sveinsdóttir var með 7 varða bolta eða 54% markvörslu en af þessum 7 boltum varði hún tvö víti, átti mjög góða innkomu.

Selfyssingar höfðu svo sannarlega ástæðu til að gleðjast í lok leiks.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/JÁE