Selfoss beið lægri hlut í umspili

Selfoss beið lægri hlut í umspili

Strákarnir í meistaraflokki karla í handbolta töpuðu í umspili á móti Stjörnunni og hafa því lokið keppni í vetur. Stjarnan vann 2-0 í viðureigninni um laust sæti í úrvalsdeild en í báðum leikjunum voru Selfyssingar seinir í gang og voru í raun alltaf skrefinu á eftir. Lið Stjörnunnar er mjög svipað og lið Selfoss, skipað ungum efnilegum leikmönnum sem aldir eru upp hjá félaginu. Handknattleiksdeild Selfoss óskar Stjörnunni að sjálfsögðu innilega til hamingju með árangur vetrarins.

Eftir frábært gengi Selfoss á tímabilinu er gríðarlega svekkjandi að komast ekki einu skrefi lengra en með því hefði liðið tryggt sér sæti í úrvalsdeild, ef fjölgun verður þar næsta tímabil sem allar líkur eru á. Eins og fram hefur komið áður þá var liðið að spila vel í allan vetur, töpuðu aðeins þremur leikjum í deildarkeppninni. Það er erfitt að fara í umspil, mikið undir og dýrt að gera mistök eins og dæmin sanna.

Það hafa margir gagnrýnt HSÍ fyrir flóknar reglur um hvaða lið fara upp ef fjölgað verður í úrvalsdeildinni næsta tímabil. Sérstaklega hefur verið gagnrýnt að svo virðist sem ekkert lið muni falla úr efstu deild verði fjölgað. Neðsta lið úrvalsdeildar þarf ekki að taka þátt í umspili til að halda sæti sínu, er „save“ án þess að vinna fyrir því. Eftir að hafa rýnt í þessar flóknu reglur þá virðist Selfoss vera næsta lið upp en til þess að það verði hefði neðsta lið úrvalsdeildar þurft að falla.

Lið Selfoss á fullt erindi í efstu deild, hefur sýnt það í vetur þó svo liðið hafi ekki verið að sýna sitt besta þessa síðustu tvo leiki á móti Stjörnunni en þar voru flestir leikmenn að spila undir getu. Það er engu að kvíða í framtíðinni, uppbygging yngri flokka hefur verið öflug mörg undanfarin ár og margir ungir strákar hafa fengið að stíga sín fyrstu skref með meistaraflokki í vetur og sýnt að þeir eru tilbúnir í slaginn á meðal þeirra bestu. Samtals spiluðu 29 leikmenn fyrir meistaraflokk karla í vetur sem sýnir þann fjölda leikmanna sem æfa með flokknum. Á móti kemur að það getur verið erfitt að stýra svo fjölmennum æfingum í einum sal. Skapa þarf umhverfi og aðstöðu sem er samkeppnishæf við önnur lið svo okkar leikmenn sjái hag sinn í að vera áfram hjá sínu uppeldisfélagi.

Framtíðin er björt í handboltanum. Áfram Selfoss

Mynd: Selfyssingar þakka fyrir sig eftir fyrri leik liðanna.

Tags:
,