Selfoss fallið úr EHF Cup eftir tap fyrir Malmö

Selfoss fallið úr EHF Cup eftir tap fyrir Malmö

Selfoss mættu HK Malmö frá Svíþjóð í Hleðsluhöllinni í EHF Cup í gærkvöldi.  Leiknum lauk með tveggja marka sigri Svíanna, 29-31. Selfoss er því fallið úr leik í Evrópukeppninni þetta árið.

Fyrri leikurinn fór 33-27 fyrir Svíunum og því ljóst að Selfyssingar þurftu að eiga toppleik og að hlutirnir myndu falla með þeim.  Fyrri hálfleikur var hraður og mikið jafnræði með liðunum.  Malmö voru komnir með frumkvæðið um miðjan fyrri hálfleik þar sem þeir leiddu með 2 mörkum, 8-10.  Selfyssingar tóku þá frumkvæðið og voru komnir með þriggja marka forystu á lokamínútu fyrri hálfleiks, en Svíarnir náu inn marki á lokasekúndunum og staðan í hálfleik því 16-14.

Í síðari hálfleik héldu Selfyssingar sjó framan af, en um miðjan hálfleikinn fór þreytan að segja til sín og breidd gestanna kom berlega í ljós.  Á sama tíma var Tryggvi Þórisson veiddur í sína þriðju brottvísun og riðlaðist vörnin við það.  Þrátt fyrir það fór munurinn aldrei yfir 3 mörk og endaði leikurinn að lokum 29-31.

Mörk Selfoss: Hergeir Grímsson 7/2, Guðni Ingvarsson 7, Haukur Þrastarson 7, Guðjón Baldur Ómarsson 2, Árni Steinn Steinþórsson 2, Magnús Øder Einarsson 2, Alexander Már Egan 2.

Varin skot: Einar Baldvin Baldvinsson 6 (31%), Sölvi Ólafsson 6 (25%).

Nánar er fjallað um leikinn á Sunnlenska.is og Mbl.is.

Á miðvikudaginn er síðasti leikurinn í þessari törn hjá stráknum þegar þeir fá KA í heimsókn í Hleðsluhöllina, Olísdeildarslagur af bestu gerð.  Við vekjum athygli á óvenjulegum leiktíma, en leikurinn hefst kl 18:30 á miðvikudagskvöldið.  Stelpurnar eiga svo næst leik á sunnudaginn eftir viku í Grill 66 deildinni, þegar þeir taka á móti Fjölni í Hleðsluhöllinni.


Svíunum gekk illa að stoppa Guðna Ingvarsson sem skoraði 7 mörk úr 7 skotum.
Umf. Selfoss / Inga Heiða