Selfoss í höllina eftir dramatískan sigur

Selfoss í höllina eftir dramatískan sigur

Selfoss tryggði sér sæti í fjórðungsúrslitum í Coca cola bikarnum í kvöld þegar þeir unnu Þrótt í Laugardalshöll, 26-27 eftir ævintýralegar lokasekúndur.

Fyrirfram bjuggust margir við öruggum sigri Selfyssinga, enda liðið í 4.sæti Olísdeildarinnar en Þróttur í 5.sæti Grill 66 deildarinnar en annað kom á daginn. Selfyssingar byrjuðu betur og leiddu mestan fyrri hálfleik, en Þróttarar gáfust ekki upp og komust yfir fyrir lok fyrri hálfleiks og leiddu 14-13 í hálfleik. Ekki tók betra við í byrjun seinni hálfleiks og náðu Þróttarar mest þriggja marka forskoti. Selfyssingar svöruðu og komust í 24-26 þegar um fjórar mínútur voru eftir. Þróttur náði síðan að jafna leikinn, 26-26 en Selfoss náðu ekki að nýta sín tækifæri til að gera út um leikinn.

Síðustu sókn leiksins átti Þróttur en Sölvi Ólafsson kórónaði góðan leik sinn með því að verja skot úr dauðafæri, boltinn hrökk til Árna Steins sem var fljótur að hugsa og skaut yfir allan völlinn. Markmaður Þróttar var þá staddur á miðjum vellinum og hnitmiðað skot Árna Steins söng í netinu, rétt áður en leiktíminn rann út. Sankallað flautumark!

Mörk Selfoss: Teitur Örn Einarsson 11 (8), Elvar Örn Jónsson 6, Haukur Þrastarson 4, Hergeir Grímsson 3, Árni Steinn Steinþórsson 2. Atli Ævar Ingólfsson 1.

Sölvi Ólafsson varði 17 skot í markinu (47%) og Helgi Hlynsson 5 skot (50%).

Dregið verður í fjögurra liða úrslit á miðvikudaginn n.k. Ásamt Selfyssingum verða í pottinum lið Hauka og Fram og Grótta eða ÍBV. Nánar er fjallað um leikinn á Sunnlenska.is, Mbl.is og lokasekúndur leiksins má sjá á Rúv.is. Leikskýrslu má nálgast hér.

____________________________________________
Mynd: Sölvi Ólafsson varði eins og berserkur í marki Selfoss.
Umf. Selfoss / Jóhannes Á. Eiríksson.