Selfoss í lykilstöðu

Selfoss í lykilstöðu

Selfoss gerði góða ferð norður á Akureyri í gær þegar liðið vann KA/Þór í öðrum leik liðanna í úrslitaeinvíginu um sæti í Olís-deild kvenna næsta tímabil. Með sigrinum eru okkar stelpur komnar 2-0 yfir í einvíginu og þurfa einn sigur í viðbót til að tryggja sæti sitt. Það er ekkert gefið í þessari keppni og þurfa stelpurnar góðan stuðning í næsta leik sem fer fram á föstudaginn klukkan 20:15 í Vallaskóla.

Selfoss leiddi allan leikinn sem var spennandi frá upphafi til enda. Lítið var skorað í fyrri hálfleik en staðan í leikhléi var 7-9 fyrir Selfoss. Eftir hlé hélt spennan áfram en Selfoss var alltaf skrefinu á undan og náði mest sex marka forystu, 14-20. KA/Þór náði að minnka muninn niður í þrjú mörk undir lokin en sigurinn var þó aldrei í hættu. Lokatölur 20-24 fyrir Selfoss.

Fjallað er um leikinn á vef Sunnlenska.is.

Dijana Radojevic var markahæst í leiknum með níu mörk. Kristrún Steinþórsdóttir skoraði sex, Adina Ghidoarca fjögur, Perla Ruth Albertsdóttir og Hulda Dís Þrastardóttir voru með tvö mörk hvor og Carmen Palamariu  skoraði eitt mark.

Katrín Ósk Magnúsdóttir stóð sig vel í markinu fyrir aftan öfluga vörn Selfoss og var með 20 varin skot sem gerir 50% markvörslu.

Hvetjum alla til að mæta á pallana í íþróttahúsi Vallaskóla á föstudaginn klukkan 20:15 og styðja stelpurnar, en með sigri tryggja þær veru sína í efstu deild næsta tímabil.

Katrín Ósk átti mjög góðan leik í marki Selfyssinga.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/Jóhannes Ásgeir Eiríksson.