SELFOSS ÍSLANDSMEISTARAR 2019

SELFOSS ÍSLANDSMEISTARAR 2019

Selfoss urðu í gær Íslandsmeistarar Olísdeildar karla árið 2019, í fyrsta skipti í sögu félagsins!

Leikurinn endaði með 10 marka sigri Selfoss, 35-25. Sigurinn var aldrei í hættu og var það svolítið úr karakter miðað við aðra leiki liðsins í vetur.

Haukar komust í 0-1 í upphafi leiks en síðan sáu þeir ekki til sólar. Selfoss komst 7-4 yfir og í hálfleik var staðan orðin 16-11 Selfyssingum í vil. Selfyssingar byrjuðu seinni hálfleik af krafti og gáfu aldrei eftir. Þeir náðu fljótt 6-7 marka forystu í seinni hálfleik og mestur varð munurinn ellefu mörk, þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum. Úrslitin voru ráðin, Haukarnir búnir að kasta inn handklæðinu og ljóst að Íslandsmeistaratitillinn myndi enda á Selfossi í fyrsta skipti í sögunni.

Hleðsluhöllin var að sjálfsögðu pökkuð og stuðningsmenn Selfoss voru frábærir eins og alltaf. Það trylltist allt í leikslok og titlinum fagnað. Móttaka var fyrir liðið á planinu við Pylsuvagninn þegar bikarinn kom yfir brúna. Titlinum var fagnað með blysum, flugeldum, Ingó og Bessa Hressa langt fram á nótt. 

Mörk Selfoss: Elvar Örn Jónsson 11/2, Alexander Már Egan 5, Árni Steinn Steinþórsson 4, Haukur Þrastarson 4, Atli Ævar Ingólfsson 4, Guðni Ingvarsson 3, Guðjón Baldur Ómarsson 2, Nökkvi Dan Elliðason 1, Sverrir Pálsson 1.

Varin skot: Sölvi Ólafsson 15/1 (32%) og Pawel Kiepulski 1/1 (50%)

Nú tekur við örstutt sumarfrí fram á mánudag, við minnum að sjálfsögðu á lokahófið á laugardaginn, enn er hægt að ná sér í miða í verslun Baldvin & Þorvaldar, Austurvegi 56. Meistaraballið verður haldið strax eftir lokahófið og er FRÍTT INN í boði Umf. Selfoss!!

Víða var fjallað um afrek Selfyssinga og ekki úr vegi að minna á facebook síðu Selfoss handbolta þar sem hægt er að sjá myndir frá kvöldinu.