Selfoss tryggði sér sæti í Laugardalshöllinni

Selfoss tryggði sér sæti í Laugardalshöllinni

Selfoss tryggði sér í gær sæti í bikarhelgi HSÍ sem fram fer í Laugardalshöllinni seinustu helgina í febrúar. Liðið tryggði sér sæti í undanúrslitum eftir eins marks sigur á Gróttu 20-21 en mikil spenna var í lokin þar sem Grótta misnotaði vítakast á lokasekúndunum.

Leikurinn fór rólega af stað og greinilegt að bæði lið ætluðu sér að fara varlega inn í leikinn, Selfoss hafði frumkvæðið í leiknum en eftir tíu mínútur var staðan jöfn 5-5. Jafnræði hélst með liðunum fram að leikhléi þegar staðan var 12-12.

Stelpurnar okkar héldu frumkvæðinu allan seinni hálfleik en náðu aldrei að rífa sig almennilega frá heimakonum sem máttu þakka markverði sínum fyrir að halda spennu í leiknum. Á lokamínútum leiksins var spennan orðin óbærileg svo að leikmenn beggja liða misstu boltann trekk í trekk. Grótta fékk vítakast á lokasekúndum leiksins í stöðunni 20-21 en Katrín Ósk Magnúsdóttir lokaði markinu svo vel að leikmaður Gróttu sá þann kost einan að skjóta framhjá markinu.

Nánar er fjallað um leikinn á vef Sunnlenska.is.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var langmarkahæst Selfyssinga með 11 mörk. Dijana Radojevic skoraði 3, Kristrún Steinþórsdóttir og Arna Kristín Einarsdóttir 2 og þær Perla Ruth Albertsdóttir, Adina Ghidoarca og Carmen Palamariu skoruðu allar 1 mark.

Selfyssingar fögnuðu gríðarlega í lok leiks ásamt fjölda áhorfenda sem fylgdi liðinu.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/Jóhannes Ásgeir Eiríksson