Selfoss úr leik í bikarnum eftir vítakeppni

Selfoss úr leik í bikarnum eftir vítakeppni

Selfoss tapaði fyrir Fram í undanúrslitum Coca Cola bikarsins á föstudaginn síðastliðinn í Laugardalshöllinni. Úrslitin réðust í vítakastkeppni og endaði leikurinn 31-32 fyrir Fram.

Leikurinn var jafn lengst af fyrri hálfleik en undir lok hans skoruðu Selfyssingar þrjú mörk í röð og leiddu 15-12 í leikhléi. Framarar voru beittari í upphafi seinni hálfleiks, jöfnuðu 17-17 og þremur mínútum fyrir leikslok var staðan 21-23 fyrir Fram. Selfyssingar skiptu þá yfir í 3-3 vörn og náðu að jafna þegar tæp mínúta var eftir 23-23 og því þurfti að framlengja.

Eftir hnífjafna framlengingu var staðan ennþá jöfn 27-27 og því varð að grípa til vítakeppni. Þar skoruðu Framarar úr öllum sínum vítaskotum en Teitur Örn Einarsson skaut í stöng úr sínu skoti og Fram tryggði sér þar með sæti í úrslitaleiknum þar sem þeir steinlágu gegn nágrönnum okkar í ÍBV.

Mörk Selfoss: Teitur Örn Einarsson 8/1, Elvar Örn Jónsson 6/1, Atli Ævar Ingólfsson 6/1, Árni Steinn Steinþórsson 5/1, Haukur Þrastarson 2/1, Richard Sæþór Sigurðsson 1, Sverrir Pálsson 1.

Varin skot: Sölvi Ólafsson 15 (35%).

Nánar er fjallað um leikinn á Sunnlenska.isMbl.is. Leikskýrslu má nálgast hér.

 
____________________________________________
Mynd: Sölvi stóð sig vel í marki Selfyssinga og varði 15 skot.
Umf. Selfoss / Jóhannes Á. Eiríksson.