Selfossstelpur leika til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn

Selfossstelpur leika til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn

Stelpurnar í 3. flokki spiluðu við KA/Þór í undanúrslitum Íslandsmótsins í handbolta í gær, sunnudag. Vitað var að um erfiðan leik yrði að ræða enda höfðu þessi lið háð spennandi leiki í þrígang áður í vetur.

Jafnræði var með liðum framan af en stelpurnar okkar þó með 1-2 marka forystu, spiluðu sína þekktu góðu vörn og með trausta markvörslu fyrir aftan sig. Í hálfleik var staðan 15-13.

Selfoss jók muninn í seinni hálfleik í 20-14 en norðanstúlkur spýttu í lófa og minnkuðu í 23-22, var þá farið að fara um stuðningsmenn Selfoss í stúkunni. Þegar 20 sekúndur voru eftir missti Selfoss boltann og Akureyringar brunuðu í sókn sem var brotin á bak aftur, en þær fengu aukakast á síðustu sekúndu sem ógnarsterkur varnarveggur Selfoss náði að stöðva.

Sebastian Alexanderson þjálfari stelpnanna var gríðarlega stoltur af þeim í leikslok og hafði þetta að segja: „það er frábært afrek hjá þessum stelpum að ná að spila úrslitaleik um tvo stærstu titlana í vetur, þetta er ótrúlega samheldin hópur sem mikið hefur lagt á sig til að komast þetta langt.“

Markaskorun: Þuríður 6, Perla Rut og Hulda Dís 5, Elena 4, Ída Bjarklind 2 og Helga Rún 1. Katrín Ósk varði 11 skot og Dröfn kom inn á í einu víti en náði ekki að verja.

Flottur sigur staðreynd og stelpurnar spila úrslitaleik um Íslandsmeistartitilinn við Fylki í Kaplakrika, föstudaginn 1. maí, kl 18:30.

Ókleifur varnarmúr Selfyssinga tók seinasta skot Akureyringa og gulltryggði sigurinn.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/Jóhannes Ásgeir