Selfyssingar bikarmeistarar – Haukur og Katrín Ósk bestu leikmennirnir

Selfyssingar bikarmeistarar – Haukur og Katrín Ósk bestu leikmennirnir

Selfoss átti tvö lið í úrslitaleikjum í bikarkeppni yngri flokka sem fram fór í Laugardalshöll á sunnudag. Strákarnir á yngra ári í 4. flokki mættu FH og stelpurnar í 3. flokki mættu Fram.

Strákarnir bikarmeistarar í 4. flokki

Selfyssingar urðu bikarmeistarar 4. flokks karla yngri en liðið sigraði FH 35-30 eftir að staðan í hálfleik var 17-17. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann en Selfyssingar alltaf skrefinu á undan í síðari hálfleik.

Maður leiksins var valinn Haukur Þrastarson leikmaður Selfoss en hann fór á kostum í leiknum og skoraði hvorki fleiri né færri en 21 mark úr 23 tilraunum auk þess sem hann átti fjölda stoðsendinga. Alexander Hrafnkelsson markmaður Selfoss var einnig frábær í markinu og kom í veg fyrir að FH næði að jafna í síðari hálfleik.

Mörk Selfoss: Haukur Þrastarson 21, Sölvi Svavarsson 6, Haukur Páll Hallgrímsson og Aron Emil Gunnarsson 3, Þorsteinn Freyr Gunnarsson og Bergsveinn Vilhjálmur Ásmundsson 1 mark hvor. Alexander Hrafnkelsson varði 16/1 skot í marki Selfoss.

Sárt tap hjá stelpunum í 3. flokki

Í 3. flokki kvenna vann Fram eins marks sigur á Selfoss í úrslitaleik. Eftir að staðan var jöfn í hálfleik 10-10 sigu Framarar þremur mörkum fram úr um miðjan seinni hálfleik en Selfoss minnkaði muninn í eitt mark þegar stutt var til leiksloka. Mikil spenna var í leiknum og Katrín Ósk Magnúsdóttir markmaður Selfoss varði eins og berserkur undir lokin, en það dugði ekki til og Fram sigraði með einu marki 19-18.

Katrín Ósk Magnúsdóttir markvörður Selfoss var valin maður leiksins en hún varði 21 skot í leiknum. Mörk Selfoss: Hulda Dís Þrastardóttir 7, Dagmar Öder Einarsdóttir 5, Dagbjört Rut Friðfinnsdóttir 4, Ída Bjarklind Magnúsdóttir og Drífa Björt Ólafsdóttir 1 mark hvor.

Selfyssingar geta verið stoltir að framistöðu liðanna sinna um helgina.

Haukur og Katrín Ósk voru valin menn leiksins.

Ljósmyndir: HSÍ og Umf. Selfoss/Magnús Matthíasson

Katrín Magnúsdóttir maður leiksins Haukur Þrastarson maður leiksins 3kv Selfoss 4. fl. kk. bikarmeistarar