Sigur á Berserkjum

Sigur á Berserkjum

Ungmennalið Selfoss vann góðan útisigur á Berserkjum í 1. deild karla í handbolta í kvöld, 28-30.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik og skiptust liðin á um að hafa forystu. Staðan í hálfleik var 14-15. Berserkir byrjuðu seinni hálfleik betur en Selfyssingar tóku völdin um miðjan seinni hálfleik og náði fimm marka forystu, 22-27, en Berserkir náðu að minnka muninn niður í eitt mark á lokamínútunni.

Mörk Selfoss: Guðjón Baldur Ómarsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Daníel Karl Gunnarsson skoraði 6, Ísak Gústafsson 5, Tryggvi Þórisson og Tryggvi Sigurberg Traustason 4, Haukur Páll Hallgrímsson 2 og þeir Vilhelm Freyr Steindórsson og Sigurður Snær Sigurjónsson skoruðu báðir 1 mark. Elvar Elí Hallgrímsson stóð vaktina vel í vörninni og var með 5 brotin fríköst.

Varin skot: Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 15 skot (34%)  í marki Selfoss.

Selfoss-U er nú í 7. sæti deildarinnar með 4 stig og er næsti leikur liðsins gegn Aftureldingu í Mosfellsbæ eftir slétta viku.


Guðjón Baldur var markahæstur Selfyssinga í kvöld með 7 mörk
Umf. Selfoss / SÁ