Sigur á móti Fjölni

Sigur á móti Fjölni

Selfoss sigraði Fjölni í Grafarvoginum í gærkvöldi 25-33. Fjölnismenn byrjuðu betur og komust í stöðuna 5-3 en þá fóru Selfyssingar í gang, eftir fimmtán mínútna leik var staðan orðin 7-9 fyrir Selfoss sem smá saman jók muninn. Sigurinn var í raun aldrei í hættu. Sókn Selfyssinga var fín í leiknum en vantaði aðeins upp á vörnina, sérstaklega í fyrri hálfleik. Staðan í hálfleik var 13-17 fyrir Selfoss.

Gunnar hefur greinilega aðeins hrist upp í mannskapnum í hálfleik en varnarleikur liðsins var betri í seinni hálfleik. Selfoss átti góða kafla í leiknum en Fjölnir er lið sem spilar frekar hægan sóknarleik og auðvelt að svæfa andstæðinginn í leik. Undir lok seinni hálfleiks kom einn sá skondnasti leikkafli sem hefur sést þar sem boltin vafðist á milli handa og fóta leikmanna en á einhvern undarlegan hátt tókst Selfoss að halda boltanum og skora úr þeirri sókn. Selfoss komst mest í ellefu marka forskot en leikurinn endaði með átta marka sigri, 25-33.

Selfoss er áfram í þriðja sæti í deildinni eftir þennan leik, einu stigi á eftir Stjörnunni og fimm stigum á eftir Aftureldingu sem er í fyrsta sæti en hefur spilað einum leik meira en Selfoss. Næsti leikur liðsins er mjög mikilvægur en þá kemur einmitt Afturelding í heimsókn á Selfoss. Sá leikur fer fram föstudaginn 6. desember klukkan átta. Oft er þörf en nú er nauðsyn að fylla húsið og styðja strákana til sigurs í síðasta heimaleik liðsins fyrir jólafrí.

Markaskorun heldur áfram að dreifast á marga en Sverrir Pálsson var markahæstur í leiknum með 6 mörk, Einar Sverrisson og Hörður Másson voru með 5 mörk, Jóhann Erlingsson og Andri Már með 4 mörk, Jóhannes Snær og Örn Þrastarson með 3 mörk og Axel Sveinsson, Ómar Vignir og Magnús Már allir með eitt mark.

Sebastian stóð í marki Selfoss í fyrri hálfleik og Sverrir Andrésson í þeim seinni.

Á mynd: Sverrir Pálsson markahæstur í leiknum með 6 mörk.
Mynd: Inga Heiða Heimisdóttir.

Tags: