Sigur hjá strákunum, tap hjá stelpunum í fyrstu umferð

Sigur hjá strákunum, tap hjá stelpunum í fyrstu umferð

Báðir meistaraflokkarnir í handbolta spiluðu sinn fyrsta leik á tímabilinu um helgina.

Strákarnir byrjuðu á heimaleik og unnu góðan sigur á Hömrunum frá Akureyri 29-20. Selfyssingar höfðu yfirburði allan leikinn og fóru inn í hálfleikinn með sjö marka forystu 16-9. Lið Selfoss slakaði aðeins á í upphafi seinni hálfleiks og náðu Hamrarnir að minnka muninn niður í þrjú mörk en þá vöknuðu okkar menn og sigruðu með níu mörkum. Sverrir Pálsson var markahæstur með átta mörk, Egidijus var með 7 mörk, Jóhann Erlings með 5, Daníel og Andri Már með 2 hvor, Sævar Ingi, Ómar Vignir, Árni Geir, Elvar Örn og Guðjón voru allir með eitt mark. Sebastian stóð í marki Selfoss og varði 16 skot.

Fjallað er um leikinn á vef Sunnlenska.is auk þess sem þar má finna viðtal við þjálfarann Gunnar Gunnarsson.

Meistaraflokkur kvenna sótti Fram stelpur heim. Fyrirfram var vitað að um erfiðan leik yrði að ræða. Fram teflir fram reynslumiklu liði í ár á meðan okkar stelpur eru ennþá að safna í reynslubankann en núna eru þær að hefja sitt þriðja tímabil eftir að flokkurinn var endurvakinn eftir nokkurt hlé. Góð barátta var hjá Selfoss og mega þær vera sáttar eftir þennan leik, þrátt fyrir tap. Lokatölur voru 33-21 fyrir Fram. Markahæst í liði Selfoss var Hrafnhildur Hanna með 14 mörk.

Fjallað var um leikinn á vef Sunnlenska.is.

Næsti leikur hjá stelpunum og þeirra fyrsti heimaleikur er þriðjudaginn 23. september klukkan 19:30 í Vallaskóla. Hvetjum alla til að mæta á pallana og hvetja Selfoss!

Mynd: Sverrir Pálsson /myndina tók Guðmundur Karl /Sunnlenska.is