Sigur í toppbaráttunni

Sigur í toppbaráttunni

Stelpurnar sigruðu í kvöld FH í Kaplakrika, 25-22.  Þetta var uppgjör liðanna í 2. & 3. sæti Grill 66 deildarinnar þar sem baráttan um sæti beint upp í Olísdeild lifir enn með þessum úrslitum.

Þessi stórleikur stóð undir öllum væntingum og hart barist.  Bæði lið léku mjög góða vörn og og var lítið skorað framan af.  Gestirnir frá Selfossi náðu þó fljótt frumkvæðinu sem þær átti ekki eftir að láta af hendi.  Munurinn nánast allan hálfleikinn 2-4 mörk og staðan í hálfleik 11-14.  Seinni hálfleikur var meira af því sama, Selfoss leiddi en FH-ingar köstuðu ekki inn handklæðinu, minnkuðu muninn niður í eitt mark.  Þegar um tíu mínútur lifðu af leiknum sigldu Selfoss stelpur aftur framúr og kláruðu leikinn sterkt.  Frábær sigur staðreynd, 25-22.

Mörk Selfoss: Hulda Dís Þrastardóttir 8/3, Katla María Magnúsdóttir 7, Tinna Sigurrós Traustadóttir 3, Rakel Guðjónsdóttir 2, Katla Björg Ómarsdóttir 2, Agnes Sigurðardóttir 2, Elín Krista Sigurðardóttir 1,.

Varin skot: Henriette Östergaard 10 (32%),  Dröfn Sveinsdóttir 1 (50%)

Úrslit leiksins merkja það að enn eru stelpurnar í 3. sæti deildarinnar með 30 stig, einu stigi á eftir FH.  Endi stelpurnar fyrir ofan FH eru þær komnar beint í Olísdeildina.  Að öðrum kosti eru þær nánast búnar að tryggja sér heimaleikjaréttinn í umspili á móti Gróttu eða ÍR.  Næsti leikur hjá meistaraflokkum okkar er ekki fyrr en eftir tæpar tvær vikur, en U-lið okkar Selfyssinga á stórleik á morgun laugardag kl. 16:00 á móti ÍBV U í toppslag 2. deildarinnar.  Það er óhætt að mæla með þeirri skemmtun.


Stelpurnar unnu góðan liðssigur þar sem vörnin var beittasta vopnið.
Umf. Selfoss / ESÓ