Silfurstelpurnar okkar

Silfurstelpurnar okkar

Stelpurnar okkar í 3. flokki mættu Fylki í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta í Kaplakrika í gær.

Það var á brattann að sækja fyrir okkar stelpur strax frá upphafi leiks og réðu þær afar illa við mann leiksins, Theu Imani Sturludóttur, sem skoraði helming marka Fylkis í leiknum. Stórskytta Selfyssinga, Þuríður Guðjónsdóttir, var tekin úr umferð allan leikinn en skoraði engu að síður 11 mörk. Varnarleikur liðsins var því miður ekki eins og við þekkjum hann og náði liðið ekki að þétta í glufurnar þannig að það gæti velgt Fylkisstelpum undir uggum.

Það munaði mikið um að í Selfossliðið vantaði þær Hörpu Sólveigu Brynjarsdóttir og Dagmar Öder Einarsdóttur en þjálfari liðsins Sebastian Alexandersson taldi það hafa kostað okkur Íslandsmeistaratitilinn í viðtali við FimmEinn.is.

Lokatölur urðu 32-25 en Fylkir hafði einnig sjö marka forystu í hálfleik 20-13.

Mörk Selfoss: Þuríður Guðjónsdóttir 11, Elena Birgisdóttir 3, Hulda Dís Þrastardóttir 3, Dagbjört Rut Friðfinnsdóttir 3, Ída Bjarklind Magnúsdóttir 3, Helga Rún Einarsdóttir 1, Perta Ruth Albertsdóttir 1. Varin skot: Katrín Ósk Magnúsdóttir 4.

Mörk Fylkis: Thea Imani Sturludóttir 16, Halldóra Björk Hauksdóttir 7, Hallfríður Elín Pétursdóttir 4, Diljá Mjöll Aronsdóttir 4, Alexandra Sigurðardóttir 1. Varin skot: Ástríður Glódís Gísladóttir 14.

Þuríður í undanúrslitaleiknum gegn KA/Þór.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/Jóhannes Ásgeir Eiríksson